Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stjórn Sinfóníunnar ræðir mál Árna Heimis í vikunni

Mynd með færslu
 Mynd: - - Sinfó
Stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands kemur saman á fundi á miðvikudag. Sigurður Hannesson, stjórnarformaður, segist gera fastlega ráð fyrir að þar verði rætt um ásakanir Bjarna Frímanns Bjarnasonar, hljómsveitarstjóra og tónskálds um kynferðisbrot af hálfu Árna Heimis Ingólfssonar, fyrrverandi listræns stjórnanda sveitarinnar. Stjórnendur Sinfóníunnar hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir viðbrögð við málinu.

Hafði ekki komið á borð núverandi stjórnarformanns

Sigurður tók við starfi stjórnarformanns fyrir um hálfu ári síðan og segir að málið hafi ekki komið á borð stjórnar á þeim tíma. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu verður mál Árna Heimis rætt á stjórnarfundi á miðvikudag. Sigurður vildi ekki staðfesta það en sagðist gera fastlega ráð fyrir að það kæmi til tals. Hann vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið og vísar á framkvæmdastjóra sveitarinnar.  

Sigurður tók við af Sigurbirni Þorkelssyni sem var skipaður árið 2014 af þáverandi menningarmálaráðherra Illuga Gunnarssyni. Sigurbjörn vildi ekkert tjá sig um málið þegar eftir því var leitast. 

Rektor Listaháskólans heyrði af málinu í haust

Meint brot Árna var framið þegar Bjarni Frímann var nemandi hans við Listaháskóla Íslands. Bjarni var þá 17 ára, árni 35 ára.  Bjarni segir í færslu sem hann birti á fimmtudag að Sinfóníuhljómsveitin hafi hylmt yfir brotin í mörg ár.

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor LHÍ, segir að skólinn hafi fengið veður af málinu síðasta haust. Það hafi þá farið í formlegt ferli innan skólans og „niðurstaða komist í málið“ í vor. Hún vildi þó ekki segja hver sú niðurstaða var. Fríða Björk segir að ekki hafi borist frekari tilkynningar um Árna Heimi og tekur fram að skólinn taki öllum ásökunum alvarlega. Árni Heimir starfi ekki lengur við skólann. 

Veita ekki viðtöl vegna málsins

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, vildi ekki veita viðtal og sagðist fyrst hafa heyrt af málinu í fréttum í vikunni. Ekkert erindi hafi borist ráðuneytinu. 

Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníusveitarinnar,  hefur ekki viljað veita viðtal vegna málsins. Hún sendi frá sér skriflega yfirlýsingu á fimmtudag þar sem segir að Bjarni hafi ekki viljað fara lengra með málið og það takmarki möguleika stjórnenda. Brugðist sé við málum sem þessum í samræmi við óskir þolanda.