Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Skaut á innbrotsþjóf en drap níu ára stúlku

02.10.2022 - 06:31
Mynd með færslu
 Mynd: Etienne Godiard - Unsplash
34 ára karlmaður hefur verið ákærður fyrir að myrða níu ára gamla stúlku sem var skotin á heimili sínu í Liverpool á Englandi í ágúst síðastliðnum. Stúlkan, Olivia Pratt-Korbel, var skotin banvænu skoti þegar móðir hennar freistaði þess að stöðva byssumann sem elti annan mann inn á heimili þeirra mæðgna.

Byssumaðurinn, Thomas Cashman, hefur einnig verið ákærður fyrir tvær morðtilraunir; annars vegar gegn móðurinni, Cheryl Korbel, og hins vegar gegn manninum sem hann var að elta, dæmdum innbrotsþjófi, Joseph Nee að nafni. 

Nee var á flótta undan Cashman þegar hann hljóp að opnum útidyrunum á heimili þeirra mæðgna. Cashman skaut á eftir honum og fór eitt skotið í bringu Oliviu en annað í úlnlið móður hennar, þegar hún reyndi að skella hurðinni til að hindra inngöngu mannanna tveggja, sem hvorugur hafði nokkur tengsl við þær mæðgur.

Cashman lét það ekki aftra sér og hélt skothríðinni áfram, með fyrrgreindum afleiðingum. Auk morðsins og morðtilraunanna hefur Cashman verið ákærður fyrir ólöglega skotvopnaeign. Þá hefur fertugur félagi hans verið ákærður fyrir að hindra framgang réttvísinnar með því að aðstoða Cashman með ýmsum, ólöglegum hætti.