Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Setja heillega muni úr Angró í gáma til varðveislu

02.10.2022 - 13:51
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Unnið er að því að taka húsið Angró á Seyðisfirði í sundur og setja í gáma til varðveislu eftir að það féll saman í óveðrinu á Austfjörðum síðustu helgi. Pétur Ármannsson arkitekt og sviðstjóri hjá Minjastofnun segir að margt í húsinu hafi skemmst.

„Það þurfti að taka húsið niður eins fljótt og hægt er, því það var foktjón, það var ekki hægt að láta það standa lengi í núverandi ástandi. Það skemmdist margt í húsinu án vafa í þessu foktjóni,“ segir Pétur.

Angró er byggt í lok 19. aldar. Húsið var laskað eftir stóru aurskriðuna sem féll á Seyðisfirði í desember 2020 og því lá fyrir að það þyrfti að færa það á nýjan stað vegna skriðuhættu. „Það eru allir heillegir viðir úr húsinu, allt sem er upprunalegt og mögulega hægt að endurnýta er sett í gáma og varðveitt og síðan stendur til að endurbyggja húsið á nýju safnasvæði tækniminjasafns Austurlands.“ Allir heillegir munir og gluggar verða ljósmyndaðir og skilmerkilega merktir í hvaða gám þeir fara til að auðvelda endurbyggingu.

Nýtt safnasvæði verður á nýjum öruggum stað á Seyðisfirði. „Líka er mikil eftirsjá að flytja það af þessum stað því þarna hefur það verið alla tíð og hluti af þessari svokölluðu Wathne-torfu, en því miður vegna skriðuhættu er óhjákvæmilegt að flytja húsið ef það á að varðveita það á öruggan hátt.“

Sveitastjóri Fjarðabyggðar segir að líklega verði umfang tjónsins eftir óveðrið ekki að fullu ljóst fyrr en í lok vikunnar, fulltrúar frá tryggingafélögum hafa unnið að því að skrá og meta tjónið undanfarna daga. Eftir því sem veðrið slotaði voru enn að berast tilkynningar um tjón en ljóst þykir að stofnanir og fyrirtæki á Mjóeyrarhöfn við Reyðarfjörð urðu verst úti.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV