Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Ég horfði á konuna mína taka slíka ákvörðun“

Mynd: Baldur Kristjánsson/RÚV / Baldur Kristjánsson/RÚV

„Ég horfði á konuna mína taka slíka ákvörðun“

02.10.2022 - 08:57

Höfundar

„Konan mín gerði það, vil ég meina, og það kostaði okkur í fjölskyldunni heljarinnar þjáningu,“ segir Katrín Oddsdóttir og vísar hugrekki sem Kristín Eysteinsdóttir hafi sýnt þegar leikara var sagt upp störfum í Borgarleikhúsinu í kjölfar ásakana um kynferðislega áreitni. Hún gagnrýnir fáleg viðbrögð Sinfóníuhljómsveitar Íslands í máli Bjarna Frímanns Bjarnasonar sem hún segir einkennast af kjarkleysi.

Á fimmtudag greindi Bjarni Frímann Bjarnason, fyrrverandi tónlistarstjóri Íslensku óperunnar og fyrrverandi aðstoðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, frá því á Facebook-síðu sinni að stjórnendur hljómsveitarinnar hefðu hylmt yfir kynferðisbrot sem hann hefði orðið fyrir af háttsettum starfsmanni sveitarinnar.

Bjarni segist hafa rætt málið bæði við þáverandi og núverandi framkvæmdastjóra hljómsveitarinnar en fálætið og yfirhylmingin sem hann hafi mátt þola í kjölfarið hafi orð til þess að nú geti hann ekki lengur orða bundist. Bjarni segir jafnframt að á meðan hann hafi starfað með hljómsveitinni hafi meintur gerandi haft síðasta orðið í öllum ákvörðunum er vörðuðu störf Bjarna fyrir hljómsveitina.

Ekkert hafi bent til þess að farið hefði verið eftir neinum ferlum í kjölfar þess að hann tilkynnti ofbeldið. Hann hefði til dæmis verið látinn vinna undir geranda í mörg ár. 

Meintur gerandi, Árni Heimir Ingólfsson, birti í kjölfarið afsökunarbeiðni á sinni Facebook-síðu þar sem hann sagðist vera í mikill sjálfsvinnu eftir að hafa gert sér grein fyrir að hafa farið yfir mörk annarra.

Katrín Oddsdóttir lögfræðingur og Magnús Jóhann tónlistarmaður voru gestir Höllu Harðardóttur og Júlíu Margrétar Einarsdóttur í Endastöðinni á Rás 1 á föstudag þar sem málið bar á góma. Katrín sagðist í umræðunum geta brugðist við málinu sem lögfræðingur en líka sem manneskja sem byggi yfir persónulegri reynslu af máli í svipuðum dúr.

Mörg ár af lífi fjölskyldunnar undirlögð en ákvörðun Kristínar sú rétta

Eiginkona Katrínar, Kristín Eysteinsdóttir, lenti samkvæmt Katrínu í svipaðri stöðu og stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar þegar hún var leikhússtjóri Borgarleikhússins. Þá er hún að vísa í þegar Atla Rafni Sigurðarsyni var sagt upp störfum í kjölfar ásakana um kynferðislega áreitni.

Málið vakti mikið fjaðrafok og lauk með málarekstri. Katrín rifjar málið sem hún segir hafa verið sársaukafullt fyrir eiginkonu sína og fjölskyldu þeirra: „Ég get talað um hvers konar áhrif það hafði á hana, og okkur sem fjölskyldu, að stíga fram og standa með þolendum. Og það var ekki lítið. Það voru mörg ár af okkar lífi sem voru undirlögð af þessari ákvörðun en þetta var hin rétta ákvörðun engu að síður að mínu mati.“

Það sé þó ekki til nein einföld leið til að bregðast við stöðu sem þessum. Niðurstaðan sé oftast ekki einföld heldur.

Í tilviki uppsagnar Atla Rafns stefndi Atli Borgarleikhúsinu í kjölfar hennar. Í héraðsdómi voru Atla dæmdar bætur þar sem dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að uppsögnin hefði orðið til þess að vega að æru og persónu leikarans. Landsréttur var á öðru máli og sýknaði Kristínu og Leikfélag Reykjavíkur. Atli Rafn áfrýjaði þá til Hæstaréttar sem dæmdi Leikfélag Reykjavíkur til að greiða leikaranum miskabætur.

Hlýtur að koma að því að við tökum mark á fólki

Katrín segir niðurstöðuna til marks um hve flókið það sé að taka á slíkum málum, en það þýði ekki að það eigi ekki að bregðast við þeim. „Þetta er flókið, en að gera ekki neitt og að setja hann í þessa stöðu, að vinna með þeim sem hann hefur sagt frá að hafi gert slíkt gagnvart honum er óskiljanlegt að mínu mati,“ segir hún um mál Bjarna Frímanns og yfirstjórnar Sinfóníunnar. „Það hlýtur að koma að því að við tökum mark á fólki og hlustum á það.“

„Ógeðslegt að sjá þessi viðbrögð“

Þó það kunni að vera eftirsóknarvert að vera stjórnandi þá fylgi því líka flókin ábyrgð sem þurfi að axla. „Þú færð betri laun, alls konar athygli og þú færð að ráða en höfum það á hreinu að ástæðan fyrir því að þú færð betri laun og að þú færð að ráða er sú að þú þarft að taka hugrakkar og erfiðar ákvarðanir. Ég horfði á konuna mína taka slíka ákvörðun og ég horfði á gaslýsinguna og eineltið sem hún lenti í í kjölfarið, frá fólki sem veit kannski upp á sig sökina í dag, en það er alveg ógeðslegt að sjá þessi viðbrögð. Það er virkilega ógeðslegt.“

Þá segir hún líklegt að stjórnendur hafi í tilviki Bjarna ákveðið að hlífa eigin skinni í málinu með því að aðhafast sem minnst. „En hvað gerðist í staðinn? Hann neyðist til að stíga fram og segja alþjóð frá einhverju sem er áreiðanlega hans erfiðasta upplifun í lífinu.“

Hún vonar að opinberunin hafi góð áhrif á Bjarna þó skrefið sé þungt. „Ég vona fyrst og fremst að það veiti honum styrk og geri hann að stórkostlegri manneskju og listamanni en það er algjörlega galið að fólk þurfi að gera þetta til að vera verndað á sínum vinnustað.“

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Maggý - Aðsend
„Bjarni Frímann Bjarnason er eitt stórmerkasta tónlistarundur Íslandssögunnar,“ segir Magnús Jóhann

Stjórnendur þurfi að axla ábyrgð

Magnús Jóhann tekur undir orð Katrínar og segir: „Það er líka bara galin krafa trekk í trekk að ætlast sé til þess að þolendur opinberi sig um sínar jafnvel verstu og myrkustu upplifanir, til þess eins að eitthvað sé gert og eitthvað sé aðhafst. Og viðbrögð Sinfóníuhljómsveitarinnar á fimmtudag eru ekkert annað en forkastanleg blaut tuska í andlitið á Bjarna. Að fara þvert á yfirlýsingu hans og gera lítið úr hans upplifun. Biðjast ekki einu sinni afsökunar.“

Þá vísar hann í viðbrögð framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Láru Sóleyjar Jóhannsdóttir, sem sagði á fimmtudag í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu að hljómsveitin hefði tekið málið alvarlega þegar það kom á hennar borð. 

Hljómsveitin vilji aðstoða fólk á þeirra forsendum og bregðast við málum í samræmi við óskir þolenda eftir fremsta megni. Einnig væri hljómsveitin með mjög trausta ferla til að taka á málum sem þessum, en ef þolandi vildi ekki að farið væri lengra með málið þá gæti það takmarkað möguleika sveitarinnar í stöðunni. Miðað við færslu Bjarna væri nú ástæða til að skoða málið að nýju. 

Magnúsi þykir þau viðbrögð alls ekki nógu afgerandi, „sérstaklega þegar um ræðir eina merkustu menningarstofnun og burðarás í íslensku menningarlífi í fjárlögum ríkissjóðs. Það þarf einfaldlega, árið 2022, að gera betur í þessum málum.“

Hann tekur undir með Katrínu og segir mál sem þessi vissulega bæði flókin og viðkvæm en ábyrgð stjórnenda sé mikil. „Þeir þurfa að axla ábyrgð, taka erfiðar ákvarðanir og standa með þeim.“

Sorglegt fyrir íslenskt menningarlíf að Bjarni hafi séð sig knúinn til að hætta hjá Sinfóníunni

Magnús bætir því við að meintur gerandi, Árni Heimir Ingólfsson, hafi sannarlega áorkað miklu og merkilegu í gegnum árin. Málið snúist hins vegar ekki um það.

„Hann hefur gert mjög margt merkilegt og hefur sömuleiðis verið mikilsvirkur í sínum skrifum og störfum í þágu menningarinnar en sko, það er í raun sama hversu merkilegur þú ert eða hverju þú hefur áorkað það réttlætir ekki slíka framkomu í garð Bjarna,“ segir Magnús.

Bjarni sé ekki síður merkur listamaður og framlag hans afar dýrmætt. „Bjarni Frímann Bjarnason er eitt stórmerkasta tónlistarundur Íslandssögunnar. Ég ætla ekki að tíunda nákvæmlega í hverju það felst nákvæmlega en bara svo það sé tekið út fyrir sviga þá er hann sem stjórnandi okkar fremsti maður.“

Það sé því sérlega sorglegt fyrir íslenskt menningarlíf að hann hafi séð sig knúinn til að hætta störfum hjá Sinfóníunni vegna málsins þar sem Magnús segir að hann ætti að fá að rækta sitt listfengi, „okkur öllum til sóma og til að auðga líf okkar allra.“

Hugrekki sem hafi kostað þjáningu og sársauka

Katrín segir að auðvelda leiðin ekki til því mál sem þessi skili aldrei auðveldri niðurstöðu. Það hljóti þó að vera markmið samfélagsins að útrýma málum sem þessum en til þess að komast þangað þurfi stundum að upplifa þjáningu og sársauka og sýna mikið hugrekki.

„Konan mín gerði það, vil ég meina, og það kostaði okkur í fjölskyldunni heljarinnar þjáningu. En ég vil ekki segja að hún hafi ekki verið þess virði.“

Kristín Eysteinsdóttir hafi sýnt með sínu fordæmi að það væri hægt að fara þá leið sem hún valdi.

„Ég er þess vegna leið að það sé ekki hægt að finna leiðir til að verja aðra sem verða fyrir svona brotum án þess að þurfa að opinbera sig með þeim hætti sem Bjarni gerði, eða upplifi sig að hann hafi þurft að gera," segir Katrín. „Ég er mjög leið að það hafi enn ekki skilað árangri.“

Fróðlegt að sjá hvernig spilast úr atburðarásinni

Magnús segir að í kjölfar yfirlýsingar Bjarna hafi fleiri stigið fram á samfélagsmiðlum og lýst vafasamri hefðun af hálfu meints geranda. Það geri ekki annað en að styðja frásögn Bjarna og geri það jafnvel enn verra að ekki hafi verið aðhafst strax og hann upplýsti stjórnendur um málið. „Maður spyr sig, hefði verið aðhafst eitthvað fyrr hefði verið hægt að koma í veg fyrir eitthvað svoleiðis.“

Katrín kveðst í lok umræðunnar hafa mikla trú á mætti afsökunarbeiðninnar sem oftar mætti grípa til. Magnús tekur undir og kveðst vonast til þess að sjá afsökunarbeiðni frá Sinfóníunni. Ennfremur vonast hann til þess að sjá Bjarna aftur við störf þar þegar tíminn verði réttur. „En það verður fróðlegt að sjá hvernig spilast út úr þessari atburðarás.“

Rætt var við Katrínu Oddsdóttur og Magnús Jóhann í Endastöðinni á Rás 1. Hér má hlýða á þáttinn í heild sinni í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Innlent

Viðbrögð Sinfóníuhljómsveitarinnar „mikil vonbrigði“

Innlent

Lýsir broti í sinn garð og segir SÍ ekki hafa aðhafst