Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ákvað að hætta þegar tilfinning læddist aftan að henni

Mynd: RÚV / RÚV

Ákvað að hætta þegar tilfinning læddist aftan að henni

02.10.2022 - 19:07
Knattspyrnukonan Ásgerður Stefanía Baldursdóttir spilaði sinn síðasta leik á ferlinum þegar Íslandsmeistarar Vals gerðu jafntefli við Selfoss í lokaumferð Bestu deildarinnar í gær. Ásgerður segir að hún hafi tekið ákvörðunina um mitt sumar þegar tilfinning læddist aftan að henni.

„Það er svolítið síðan ég tók þessa ákvörðun. Ég lét Pétur [þjálfara] vita af henni strax. Ég vissi það svona í byrjun eða um mitt tímabil að þetta var komið fínt. Það sagði mér frábær maður innan félagsins að ég myndi finna tilfinninguna þegar hún kæmi og ég fann hana. Hún læddist aftan að mér. Ég er bara ofboðslega sátt við þessa ákvörðun. Auðvitað var þetta tilfinningaþrungið að ganga út af vellinum í síðasta skipti með liðinu. Það tekur örugglega tíma að melta þetta. En tíma sem maður hefur ekki alltaf haft."

Sú fjórða leikjahæsta í efstu deild

Ásgerður sem er fædd árið 1987 spilaði á ferlinum 262 leiki í efstu deild og skoraði 28 mörk en hún er, eftir því sem íþróttadeild RÚV kemst næst, fjórði leikjahæsti leikmaður efstu deildar kvenna frá upphafi. Hún spilaði með Val frá árinu 2019 en stærstan hluta ferilsins með Stjörnunni, frá árinu 2005 til 2018, eftir að hafa komið þaðan frá Breiðabliki. Hún á líka 10 A-landsleiki að baki. 

Ásgerður varð fjórum sinnum Íslandsmeistari og þrisvar bikarmeistari með Stjörnunni og bætti svo við þremur Íslandsmeistaratitlum og bikarmeistaratitli með Val.

Aðspurð hvað taki nú við segir Ásgerður: „Ég ætla að byrja á því að fara í frí á mánudaginn til Barcelona. Sjáum svo bara til."