Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þættirnir um Staupastein orðnir 40 ára

01.10.2022 - 10:30
Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons
Hér í spilaranum hljóma upptafstónar upphafsstefs sjónvarpsþáttanna Cheers eða Staupasteins, sem gekk árum saman í sjónvarpi hérlendis sem erlendis við miklar vinsældir. Í dag, 30. september, eru liðin 40 ár frá því að fyrsti þátturinn var sýndur.

Margt hefur verið rætt og ritað um Staupastein, gamanþættina sem NBC sjónvarpsstöðin bandaríska sýndi um ellefu ára skeið, flest jákvætt. Sumir hafa jafnvel tekið svo djúpt í árinni að segja hana bestu leiknu sjónvarpsseríu allra tíma. Þeirra á meðal er leikkonan, leikstjórinn og höfundurinn Amy Poehler.

Bar úti í auðninni

Höfundar þáttanna, James Burrows leikstjóri og handritshöfundarnir og bræðurnir Glen og Les Charles, höfðu unnið saman við gerð sjónvarpsseríunnar Taxi sem var að renna sitt skeið. Að áeggjan umboðsmanns þremenninganna ákváðu þeir að gera sína eigin seríu. Þeir voru aðdáendur bresku gamanþáttanna Fawlty Towers, sem nefndust Hótel Tindastóll þegar þeir voru sýndir hér á landi. Þá langaði því til að gera skemmtiþætti sem gerðust á hóteli. Eftir nokkrar vangaveltur komust þeir að þeirri niðurstöðu að líflegasti staðurinn á hverju hóteli væri barinn.

Höfundarnir veltu í fyrstu fyrir sér að setja barinn niður einhvers staðar úti í auðninni eða í fámennum bæ, en þeir enduðu í Boston, bandarísku borginni sem hefur yfir sér breskara yfirbragð en margar aðrar. Þar fundu þeir meira að segja barinn og veitingastaðinn Bul & Finch Pub, sem varð fyrirmyndin að barnum Cheers sem varð miðpunktur sjónvarpsþáttanna. Hann varð við það eitt af kennileitum Bostonborgar þar sem fjöldi ferðamanna hefur komið við síðustu áratugina.

Lítið áhorf í fyrstu

Líklega hefur farið um ráðamenn NBC sjónvarpsstöðvarinnar þegar í ljós kom að fyrsti Staupasteins-þátturinn varð í sextugasta sæti af 63 samkvæmt áhorfsmælingu Nielsen fjölmiðlarannsóknarfyrirtækisins sem meðal annars annast mælingar á áhorf á sjónvarpsefni vestanhafs. Þegar Nielsen gerði upp árið 1982 reyndist Staupasteinn vera í 74. sæti af 77. Alla jafna hefði slík hörmungarútkoma nægt til þess að hætt hefði verið við seríuna, en hún hafði hlotið almennt lof gagnrýnenda og Brandon Tartikoff, forstjóri NBC, hafði tröllatrú á að áhorfið ætti eftir að aukast.

Sú varð líka raunin. Staupasteinn gekk í ellefu ár. Þættirnir urðu alls 275, hálftími hver. Tugmilljónir horfðu á þáttinn í hverri viku og síðasta árið, 1993, voru þeir að meðaltali 26 milljónir á viku. Slíkt áhorf er talið óhugsandi nú til dags, þegar einungis nokkrar milljónir horfa á alvinsælustu þættina.

Flest viðkunnanlegt fólk

Skýringa á vinsældum Staupasteins er að leita í handritum þáttanna. Þeir gerast að langmestu leyti á barnum, í billjardsalnum á bak við og á skrifstofu eigandans. Gestirnir, veitingamaðurinn Sam Malone og afgreiðslufólkið eru hið viðkunnanlegasta fólk, að bardömunni Cörlu Tortelli frátalinni. Hún er kaldhæðin, tortryggin og viðskotaill, fráskilin fimm barna móðir sem lætur viðskiptavinina fá það óþvegið.

Þegar höfundar þáttanna bræddu með sér efni þeirra langaði þá til að bjóða upp á togstreitu á borð við þá sem leikarahjónin Spencer Tracy og Katharine Hepburn sýndu iðulega á hvíta tjaldinu. Bareigandinn Sam Malone og gengilbeinan Diane Chambers voru því látin vera sundur og saman í nokkur ár þar til leikkonan Shelley Long hafði fengið nóg af að leika Diane. Togstreitan þeirra á milli er talin hafa átt sinn þátt í að auka vinsældir þáttanna. Einhverju sinni barst framleiðendunum bréf frá konu sem hótaði því að hætta að horfa ef þau Sam og Diane skildu.

Eftirminnilegir bargestir

Eftirminnilegir bargestir á Staupasteini eru bréfberinn og beturvitinn Cliff Clavin og sálfræðingurinn Frasier Crane, sem Kelsey Grammer lék með slíkum tilþrifum að eftir að hætt var að framleiða Staupastein fékk hann eigin þátt, Frasier, sem gekk í ellefu ár. Grammer lék því sálfræðinginn snobbaða og komplexaða í tuttugu ár.

Gesturinn Norm var atvinnulítill bókari í upphafi þáttanna, en sneri sér síðar að húsamálun og innanhússhönnun og endaði loks sem smakkari í bjórverksmiðju. Hann átti í upphafi að vera í algjöru aukahlutverki en jókst ásmegin eftir því sem árin liðu. Fastur liður í þáttunum var lengi vel að Norm var heilsað hjartanlega þegar hann kom á barinn.

Stærsta ástin í lífi Sams

Á þeim tíma sem Staupasteinsþættirnir voru framleiddir gekk á ýmsu í lífi starfsfólksins og gestanna. Sumir hurfu á braut og aðrir komu, svo sem barstúlkan Rebecca Howe. Kirstie Alley fór með hlutverk hennar og varð heimsfræg fyrir. Rebecca Howe eignaðist meira að segja Staupastein um tíma þegar Sam Malone sneri sér að öðru. En hann sneri aftur og náði að eignast barinn á ný.

En allt á sinn tíma. Eftir að Staupasteinn hafði verið sýndur í ellefu ár var komið að síðasta þætti. Í enda hans eru Sam og Norm einir eftir á barnum. Norm segist alltaf hafa vitað að Sam sneri aftur, hann myndi aldrei yfirgefa stærstu ástina í lífi sínu. Hann kveður og fer. Sam virðist í fyrstu ekkert skilja í neinu. Allt í einu rennur upp fyrir honum ljós og hann strýkur barborðið varlega. Það er barið að dyrum. Óþekktur gestur vill koma inn, en Sam segir: „Sorrí, það er lokað.“ Og þar með lýkur þætti númer 275.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV