Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Nikolaj: Varð að fagna fyrir hana

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Nikolaj: Varð að fagna fyrir hana

01.10.2022 - 19:02
Daninn Nikolaj Hansen sem skoraði tvö mörk í 3-2 sigri Víkings á FH í bikarúrslitaleik karla í fótbolta í kvöld tileinkar nýfæddri dóttur sinni mörkin sem hann skoraði.

Nikolaj kom inn á af varamannabekknum á 75. mínútu og kom Víkingi yfir 2-1 á 89. mínútu. FH ingar jöfnuðu þó mínútu síðar og leikurinn fór í framlengingu þar sem sá danski skoraði sigurmarkið aðeins 18 sekúndum eftir að framlengingin var flautuð á.

„Ég er búinn að vera meiddur í tvo mánuði svo það var gaman að skora og vinna. Ég var að eignast barn og varð að fagna fyrir hana. FH ingar voru mjög góðir. Við vorum ekki svo góðir í fyrri hálfleik," segir Nikolaj sem býst við að Víkingar fagni titlinum vel í kvöld.

„Fyrst förum við að borða en svo förum við í bæinn að fá smá að drekka," sagði sá danski sem gerði sér lítið fyrir og svaraði að mestu á íslensku í viðtalinu.