Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gott að vera minnt á kvikmyndagerð frá öllum heiminum

Mynd: RÚV / RÚV

Gott að vera minnt á kvikmyndagerð frá öllum heiminum

01.10.2022 - 12:56

Höfundar

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin RIFF er nú haldin í nítjánda skipti. Hátíðin var sett í Háskólabíói á fimmtudag 29. september og stendur yfir til 9. október. Auk fjölda verðlaunamynda verður boðið upp á viðburði líkt og hellabíó í Raufarhólshelli og karíokí á KEX hosteli.

Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF, segir dagskrána innihalda myndir frá öllum heimshornum og vekur sérstaka athygli á myndum sem hefur gengið vel á nýafstöðnum kvikmyndahátíðum, líkt og í San Sebastian, Feneyjum og Cannes. „Þetta eru myndir sem að því miður kæmu eiginlega ekki annars til landsins.” 

Hátíðargestir geta valið milli mynda með því að skoða mismunandi flokka sem hátíðin býður upp á. „Það er einn flokkur sem er tileinkaður nýjum leikstjórum. Hann heitir Vitranir. Það eru sem sagt átta leikstjórar sem eru að keppa um Gyllta lundann, sem er verðlaunagripur hátíðarinnar. Svo erum við með annan flokk sem heitir Fyrir opnu hafi, og það eru svona stóru myndirnar sem hafa virkilega slegið í gegn.”

Vera opnunarmynd hátíðarinnar 

Meðal myndanna í flokknum Fyrir opnu hafi er opnunarmynd hátíðarinnar, Vera. Hún byggist á lífi leikkonunnar Veru Gemma, sem leikur sjálfa sig í myndinni. Hún er dóttir frægs kvikmyndaleikstjóra á Ítalíu, Giuliano Gemma, og vann hún meðal annars til verðlauna á Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. 

„Þetta er saga um konu, sem er dóttir frægs leikara, en allar konur geta endurspeglað sig í henni. Áhorfendur munu velta fyrir sér fegurð þegar þau horfa á þessa mynd. Hver er raunveruleg merking fegurðar?”

Vilhelm Neto andlit RIFF 

Leikarinn og uppistandarinn Villi Neto er andlit hátíðarinnar í ár, sem kemur til vegna áhuga hans á kvikmyndagerð. Hann segir mikilvægt að alþjóðleg kvikmyndahátíð sé haldin á Íslandi. 

„Sérstaklega þegar við erum undir svona miklum áhrifum frá Bandaríkjunum, hvað varðar svona daglega menningu og sjónvarpið sem við horfum á og kvikmyndirnar sem við horfum á. Þá er mjög gott að við séum áminnt allavega árlega, miðað við gullfiskaminnið okkar, hvað það er til mikið af kvikmyndum út um allan heim. Þá finnst mér líka mjög mikilvægt að sjá öll þessi mismunandi sjónarhorn frá nýjum leikstjórum, ungum leikstjórum og upprennandi fólki þá er það mjög gott fyrir ungt skapandi fólki á Íslandi að sjá þetta og fá þá einhvern annan innblástur en stíliseraðan Hollywood-innblástur.”

Sýningar í jökli og helli

Fyrir utan kvikmyndasýningar eru ýmsir viðburðir líkt og hellabíó í Raufarhólshelli á laugardag 1. október, þar sem fjölskyldumyndin Hetjudáðir Múmínpabba verður sýnd. Danska kvikmyndin Inn í ísinn verður sýnd í íshelli í Langjökli á þriðjudag 4. október. Svo verða ýmis málþing og meistaraspjöll meðan á hátíðinni stendur, líkt og málþingið Bakslag: Hvað í fjandanum gengur á? sem mun beina sjónum að ískyggilegum bakslögum í samfélaginu. 

Fjallað var um RIFF í Kastljósi. Hægt er að skoða dagskrá hátíðarinnar hér og horfa á allt innslagið í spilaranum efst í færslunni.