Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eiður Smári: Það voru allir búnir á því

Mynd: RÚV / RÚV

Eiður Smári: Það voru allir búnir á því

01.10.2022 - 20:30
Eiður Smári Guðjohnsen þjálfari FH er stoltur af sínu liði fyrir frammistöðuna í bikarúrslitaleiknum þar sem FH tapaði fyrir Víkingi í framlengingu. Hann segir litla orku hafa verið eftir í liðinu í framlengingunni.

„Ég held ég geti nú ekki beðið um mikið meira frá drengjunum. Þetta er auðvitað virkilega svekkjandi. Við reyndum hvað við gátum til að skapa okkur eitthvað. Auðvitað er ég stoltur. Ég myndi ekki vilja vera í neinum öðrum klefa en akkúrat með þessum drengjum. Þetta var geggjuð lífsreynsla, bæði fyrir okkur sem lið og okkur sem þjálfarateymi. Við bara förum skrefinu lengra næst."

Eiður segir að Víkingar hafi ráðið ferðinni í seinni hálfleik án þess þó að setja FH inga undir mikla pressu. „Við vorum aðeins of tens þegar við vorum að vinna boltann og náðum ekki alveg að finna þessa ró. Svo komu kaflar í lokin þar sem við fundum einhverja orku. Svo bara, framlenging er framlenging. Þú sást að á leikmönnum, það voru allir búnir á því."