Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Arnar Gunnlaugs: Veitir okkur hugarró

Mynd: RÚV / RÚV

Arnar Gunnlaugs: Veitir okkur hugarró

01.10.2022 - 19:35
Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings segir að það veiti hugarró að hafa unnið bikarmeistaratitilinn í kvöld með sigri á FH. Titillinn þýðir að Víkingur hefur tryggt sér þátttökurétt í Evrópukeppni á næsta tímabili.

„Þetta var ótrúlegt. FH ingarnir sýndu þvílíkt hjarta, við náðum aldrei að losna við þá. Markið var einhvern veginn aldrei að koma en svo kemur Nico inn á og tryggir okkur titilinn. Hvað getur maður sagt," sagði Arnar sem viðurkenndi þó að hafa ekki verið búinn að ákveða að setja Nikolaj inn á á þessum tímapunkti.

Arnari finnst Víkingur hafa átt sigurinn skilinn þrátt fyrir mótstöðuna frá FH. Víkingur hefur nú unnið bikarinn þrisvar í röð og segir Arnar að það þurfi að sýna auðmýkt í slíkri sigurgöngu.

„Það er svo erfitt að vinna titil í nútímafótbolta. Það eru svo mörg góð lið, margir góðir leikmenn og þjálfarar. Ég reyni að vera auðmjúkur í hvert sinn sem ég kemst í úrslitaleik. En Guð minn almáttugur hvað þetta var tens."

Bikarmeistaratitillinn þýðir að Víkingur hefur nú tryggt sér þátttöku í Evrópukeppni á næsta ári. Víkingur er enn í baráttu við KA um annað sætið í Bestu deildinni en aðeins tvö efstu sætin í deildinni veita þátttökurétt í Evrópukeppni.

„Það veitir okkur hugarró að vera komnir í Evrópukeppnina. Það hefði verið þungt högg að missa af þessum titli og fara í tens baráttu við KA um annað sætið af því að við erum búnir að eiga gott tímabil."