Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sagði sakborning hafa svert æru Armando

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Guðmundur St. Ragnarsson, réttargæslumaður fjölskyldu Armando Beqiri sem myrtur var í Rauðagerði, sagði einn sakborning hafa með framburði sínum í Héraðsdómi Reykjavikur hafa svert æru Armando og slíkt hlyti að vera fátítt í máli eins og þessu.

Guðmundur fór yfir kröfur fjölskyldu Armandos í Landsrétti og sagði hana taka undir málflutning ákæruvaldsins.

Móðir Armando krefur sakborningana fjóra um fimm milljónir í miskabætur. Í kröfugerðinni kom fram að þau mæðgin hefðu verið náin og þótt þau hefðu verið búsett hvort í sínu landinu þá hefðu þau ræðst reglulega við í gegnum samfélagsmiðla og hún fengið að fylgjast með uppvexti barnabarns síns.

Faðir Armando krefur sakborningana um fimm milljónir í miskabætur. Guðmundur sagði samband þeirra feðga hafa verið náið og að hann hefði upplifað mikla sorg eftir morðið á syni sínum og skilningsleysi. 

Ekkja Armandos krefur sakborningana um fimm milljónir í miskabætur fyrir hönd sonar hennar og Armandos og rúmar sjö milljónir vegna missis framfærenda. Hann var aðeins 16 mánaða þegar faðir hans var myrtur og sagði Guðmundur að hann hefði verið sviptur þeim grundvallaréttindum að alast upp með föður sínum. Morðið myndi hafa djúpstæð áhrif á allt æviskeið hans.  

Sömu upphæða er krafist fyrir hönd dóttur Armandos og ekkju hans en hún var ekki fædd þegar faðir hennar myrtur.

Ekkja Armando krefur sakborningana um fimm milljónir í miskabætur og rúmar 27 milljónir í skaðabætur vegna missis framfæranda. Guðmundur sagði hana hafa verið svipta eiginmanni sínum, lífsförunaut og föður barna þeirra. Þau hafi nýlega verið búin að festa kaup á húsinu í Rauðagerði og hún stæði eftir með tvö föðurlaus börn í fasteign sem yrði ætíð kennd við morðið á eiginmanni hennar.

Guðmundur bað dóminn jafnframt um að horfa til þess að einn sakborningur í málinu hefði með framburði sínum í héraðsdómi svert æru Armandos og vegið að látnum manni. Slíkt hlyti að vera einsdæmi í máli eins og þessu.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV