Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rafmagni hleypt á Hólasandslínu

30.09.2022 - 13:48
Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Hólasandslína, nýjasta háspennulínan í kerfi Landsnets, verður tekin í notkun með formlegum hætti í dag. Þá eykst raforkuöryggi á norðausturhorni landsins til muna og segir forstjóri Landsnets að það verði að einhverju leyti sambærilegt við Suðvesturland.

Hólasandslína liggur frá tengivirki á Hólasandi í Þingeyjarsýslu, 72 kílómetra leið með loftlínu og jarðstreng, að Rangárvöllum við Akureyri.

Tengist þremur stórum virkjunum

Á Hólasandi tengist línan meginflutningskerfi Landsnets og þar með þremur virkjunum, í Kröflu, á Þeistareykjum og austur í Fljótsdal. „Þessi lína gefur mjög mikið, kannski sérstaklega fyrir Eyjafjarðarsvæðið,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Vígsluathöfn í Ketilhúsinu á Akureyri

 

Myndar mjög sterka heild á norðausturhorninu

En línan skipti einnig miklu máli fyrir allt Norðausturland og myndi þar sterka heild með tengingum við þessar stóru virkjanir. „Alveg frá Eyjafirði og svo austur á Austurland. Kannski að einhverju leyti sambærilegar aðstæður og við horfum á á suðvesturhorninu þar sem við erum með mjög margar sterkar virkjanir.

Hægt að afhenda um 30 megavött á öllu áhrifasvæði línunnar 

Á Akureyri hefur lengi verið kallað eftir aukinni orku, en léleg flutningsgeta rafmagns hefur verið talin standa í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu þar. Guðmundur Ingi segir að nú batni þetta til muna og verði næg raforka til að taka í notkun ný meðalstór iðnfyrirtæki. „Eins og staðan er núna þá erum við að tala um að við getum sett á afheldingastaði á öllu svæðinu kannski um 30 megavött. En auðvitað getur það breyst ef aðgengi að orku, eða virkjunum fjölgar, hérna á svæðinu.“

Lengra viðtal við Guðmund Inga Ásmundsson, um Hólasandslínu og frekri áform Landsnets, er í spilaranum hér að ofan.