Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óskar eftir því að umsókn í NATO fái flýtimeðferð

epa10185938 Ukrainian President Volodymyr Zelensky speaks during his meeting with European Commission President Ursula von der Leyen (not pictured) during their meeting in Kyiv, Ukraine, 15 September 2022. Ursula von der Leyen arrived in Kyiv to meet with top Ukrainian officials amid the Russian invasion.  EPA-EFE/SERGEY DOLZHENKO
 Mynd: EPA
Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, tilkynnti rétt fyrir klukkan hálf þrjú í dag að hann ætlaði að óska eftir flýtimeðferð umsóknar Úkraínu um aðild að Atlantshafsbandalaginu, NATO. Beiðni hans kemur í famhaldi af tilkynningu Rússlandsforseta um innlimun fjögurra úkraínskra héraða í Rússland.

„Við höfum þegar sannað að við stöndumst kröfur bandalagsins. Við tökum nú staðfast skref með því að undirrita beiðni um flýtimeðferð á inngöngu Úkraínu í NATO,“ sagði Zelensky í myndbandi sem birt var á samfélagsmiðlum.

Öryggis- og varnarráð Úkraínu hélt neyðarfund eftir tilkynningu Pútíns um innlimun héraðanna. Í ræðu Pútíns lýsti hann því formlega yfir að fjögur héruð í Úkraínu verði innlimuð í Rússland; Lughansk, Donetsk, Zaporizhzhia og Kherson. Íbúar héraðanna samþykktu innlimun í umdeildri atkvæðagreiðslu sem hefur verið fordæmd á vesturlöndum. 

Í ræðu sinni fór Pútín fram á að Úkraínumenn leggi niður vopn, virði vilja íbúanna og snúi aftur að samningaborðinu. Zelensky segir að Úkraína semji ekki við Rússland á meðan Vladimir Pútín er enn við völd. Hann segir jafnframt að það hafi verið Úkraína sem alltaf hafi reynt að lifa í sátt og samlyndi við Rússland, á jafningjagrundvelli. Friðarviðræður við Pútín séu einfaldlega ekki mögulegar.  „Hann veit ekki hvað reisn og heiðarleiki er. Þess vegna erum við tilbúin í viðræður við Rússland - en með annan forseta við stjórnvölinn.“

Atkvæðagreiðslan um innlimun héraðanna stóð yfir í fimm daga og var ekki alþjóðlega viðurkennd. Stjórnvöld í Úkraínu og á Vesturlöndum hafa fordæmt kosningarnar og sagst aldrei munu viðurkenna héruðin fjögur sem hluta af Rússlandi.