Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Nýtt björgunarskip á leið til Vestmannaeyja

30.09.2022 - 10:45
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg - RÚV
Þór, nýtt björgunarskip Landsbjargar, kom til hafnar í Reykjavík í gær. Heimahöfn hans verður í Vestmannaeyjum og verður formleg afhending þar á morgun.

Skipið er eitt af þremur sem Landsbjörg hefur gengið frá kaupum á í stærsta fjárfestingaverkefni Slysavarnafélagsins til þessa.  Skipin eru smíðuð hjá KewaTec í Finnlandi. 

Öll þrettán björgunarskip félagsins verða endurnýjuð, samkvæmt tilkynningu, og 142,5 milljóna króna styrkur frá Sjóvá fer í smíði fyrstu þriggja skipanna. Þar segir jafnframt að viðbragðstími Landsbjargar á sjó styttist um helming í flestum tilfellum. Þá eru skipin einnig hönnuð með það í huga að geta aðstoðað við björgunarverkefni á landi, svo sem með því að tryggja fjarskipti á fáförnum stöðum ef þörf krefur.

Hvert skip kostar um 285 milljónir króna og var allt að helmings fjármögnun þeirra tryggð með samkomulagi ríkisins og Landsbjargar í janúar í fyrra, segir í tilkynningu. Þá hafi félagið safnað í nýsmíðasjóð í nokkurn tíma. 

Gert er ráð fyrir að næsta skip verði afhent fyrir lok þessa árs á Siglufirði. Smíði á þriðja skipinu hefst í janúar og það verður afhent eftir mitt næsta ár. Áfram er unnið að fjármögnun tíu björgunarskipa til viðbótar, segir í tilkynningu.

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV