Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Nítján létu lífið í árás á skóla í Kabúl

30.09.2022 - 10:20
epa09896906 Taliban stand guard in an area surrounding a school in the aftermath of multiple bomb blasts in a Shi'ite majority neighborhood, in Kabul, Afghanistan, 19 April 2022. At least four people were killed and several others were injured in consecutive suspected suicide blasts.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE
Minnst nítján létu lífið í sjálfsmorðssprengjuárás á skóla í Kabúl, höfuðborg Afganistans, í morgun. Nemendur voru að þreyta próf þegar árásin var gerð, en þetta var einkaskóli þar sem bæði var kennt stúlkum og drengjum, en flestum stúlknaskólum í landinu var lokað fljótlega eftir að Talíbanar komust til valda í ágúst í fyrra.

Talið er að meirihluti þeirra sem lét lífið í morgun hafi verið stúlkur. Skólinn er í Dasht-e-Barchi hverfinu í vesturhluta Kabúl. Margir sem þar búa tilheyra Hazara minnihlutahópnum en margar sjálfsmorðsárásir síðustu vikur hafa beinst að þeim. Enginn hefur lýst ábyrgð á árásinni en margar árásir hafa verið gerðar í hverfinu undanfarið og flestar beinst að skólum eða sjúkrahúsum. Innan Hazara minnihlutahópsins eru flestir Sjía-múslimar en meirihluti liðsmanna íslamska ríkisins og Talíbanar eru Súnní. Talíbanastjórnin hefur fordæmt árásina og segir unnið að því að tryggja öryggi í hverfinu og í allri höfuðborginni.