Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hatursglæpir eða hryðjuverk?

Mynd: RÚV / RÚV
Rannsókn á meintri skipulagningu hryðjuverka hér á landi er viðamikil, eftir því sem fram kom á fréttamannafundi lögreglunnar í gær. Lögregla hefur gert 17 húsleitir og lagt hald á fjöldann allan af vopnum. Rannsóknin er sú fyrsta sem ráðist er í hér á landi vegna gruns um skipulagningu hryðjuverka. Upplýsingar hafa verið af skornum skammti og spurningarnar fleiri en svörin.

Lögregla hefur ekki viljað staðfesta orðróm um tengsl mannanna tveggja sem eru í varðhaldi vegna málsins, við norrænar hreyfingar hvítra yfirburðasinna líkt og Stundin segist hafa heimildir fyrir að grunur leiki á. Lögreglan staðfesti þó að hún hefði við rannsókn málsins verið í samskiptum við erlendar systurstofnanir sínar, einkum á Norðurlöndunum. 

Eyrún Eyþórsdóttir, doktor í mannfræði og lektor í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri, hefur viðrað áhyggjur sínar af því að hatursorðræða hafi ekki verið tekin nógu alvarlega hér á landi. Hatursorðræða leiði gjarnan af sér hatursglæpi. 

En hver er munurinn á hatursglæpum og hryðjuverkum þegar sömu öfgaöfl búa að baki?

Rætt var við Eyrúnu Eyþórsdóttur, doktor í mannfræði og lektor í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri, um málið í Speglinum. Hægt er að hlusta á viðtalið við hana í spilaranum hér fyrir ofan.