Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Allir lögreglumenn vissu að Angjelin átti byssu

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Gígja Gunnarsson - RÚV
Steinbergur Finnbogason, verjandi Claudiu Sofia Carvalho í Rauðagerðismálinu, hafnaði því að framburður hjá skjólstæðingi hans hefði breyst eins og saksóknari hefði fullyrt. Ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna, svo hafið væri yfir allan vafa, að hún hefði átt þátt í morðinu á Armando Beqiri.

Claudiu Sofiu Carvahlo er gefið að sök að hafa fylgst með tveimur bílum í eigu Armando Beqiri kvöldið sem hann var myrtur og sent Angjelin Sterkaj skilaboðin Hi sexy þegar öðrum þeirra var ekið af stað. Hún var einn þriggja sakborninga sem var sýknuð í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Steinbergur sjálfur kom nokkuð við sögu í rannsókninni á morðinu. Hann var að kröfu lögreglu látinn víkja sem verjandi eina Íslendingsins sem sat í gæsluvarðhald vegna málsins en var ekki ákærður.

Steinbergur sagði að Claudia hefði í dag alveg sagt skilið við það fólk sem hún hefði kynnst í gegnum samband sitt og Angjelin. Hún væri í engum samskiptum við það lengur heldur væri í dag að einbeita sér alfarið að dóttur sinni.

Steinbergur mótmælti því harðlega að Claudia hefði vitað hvað hefði staðið til og nefndi þar sérstaklega þann málflutning að hún hefði vitað af skammbyssunni. Steinbergur sagði ljóst af gögnum málsins að allir lögreglumenn á landinu hefðu vitað að „Angjelin á gráum Skoda“ væri vopnaður skammbyssu.

Steinbergur gerði einnig að umtalsefni það  sem Claudiu væri gefið að sök, að hafa fengið þau fyrirmæli að fylgjast með tveimur bílum í eigu Armando sem hafði verið lagt við Rauðarárstíg. Steinbergur sagði að þetta hefði ekki verið betur skipulagt en svo að Claudia hefði farið og keypt sér kveikjara skömmu áður en öðrum bíl Armando var ekið af stað. Og benti á að Angjelin hefði þá þegar verið kominn í Rauðagerði. „Hin portúgalska ástkona Angjelins var þarna í erindsleysu.“

Steinbergur sagði að Claudia hafi verið mjög hrædd og það hafi komið ítrekað fram í skýrslutökum og hann sagði af og frá að hún hefði breytt sínum framburði, eins og saksóknari hefði haldið fram. Steinbergur gerði einnig að umtalsefni umdeilda rannsóknarskýrslu sem verjandi Claudiu í héraði hefði þurft að láta leiðrétta.  

Steinbergur rifjaði einnig upp og gerði alvarlegar athugasemdir við hvernig lögreglan hefði farið með Claudiu í vettvangsferð án lögmanns. Og þegar hún hefði setið í gæsluvarðhaldi hefði hún óskað eftir því að láta skipta um lögmann en verið neitað um það.  Þvert á móti hefði hún verið yfirheyrð um af hverju hún vildi skipta um lögmann.  Rétt er að taka fram að sá lögmaður sem Claudia vildi skipta út er ekki sá sem var verjandi hennar í héraði.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV