Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Verkamannaflokkurinn í hæstu hæðum í nýrri könnun

epaselect epa10211326 Leader of the Labour Party Sir Keir Starmer (R) and Deputy Leader of the Labour Party Angela Rayner (C) share a joke following Angela Rayner’s closing speech at the Labour Party Conference in Liverpool, Britain, 28 September 2022.  EPA-EFE/ADAM VAUGHAN
Angela Rayner, varaformaður Verkamannaflokksins, og Keir Starmer formaður flokksins. Mynd: EPA-EFE - EPA
Breski Verkamannaflokkurinn nýtur rúmlega helmings fylgis í landinu samkvæmt nýrri könnun YouGov í Bretlandi. Flokkurinn mælist þrjátíu og þremur prósentustigum hærri en Íhaldsflokkurinn, og hefur ekki mælst með svo mikið forskot í nærri þrjá áratugi.

Verkamannaflokkurinn mælist með 54 prósenta fylgi, og bætir við sig níu prósentustigum frá síðustu könnun. Íhaldsflokkurinn missir á móti sjö prósentustig frá síðustu könnun og mælist með aðeins 21 prósentu fylgi.

Svarendur könnunarinnar bera Liz Truss, nýjum forsætisráðherra Bretlands, ekki vel söguna. Nærri tveir af hverjum þremur telja Truss standa sig illa í embætti, og aðeins 15 af hundraði segja hana standa sig vel. Þá vekur athylgi að yfir helmingur þeirra sem kaus Íhaldsflokkinn árið 2019 telja Truss standa sig illa, og yfir sextíu prósent þeirra segja nýja ríkisstjórn halda illa á efnahagsmálum.

Í könnuninni segjast aðeins 37 prósent þeirra sem kusu Íhaldsflokkinn árið 2019 ákveðin í því að kjósa hann aftur ef atkvæðagreiðsla færi fram á næstunni. Yfir fjórðungur þeirra veit ekki hvað þeir myndu gera í kjörklefanum.

Mikið hefur gustað um glænýja stjórn Truss eftir að fjármálaráðherra ríkisstjórnarinnar birti fjáraukalög hennar í síðustu viku. Sterlingspundið hríðféll og breski seðlabankinn greip til þess að kaupa ríkisskuldabréf til þess að koma í veg fyrir alvarlegt efnahagsástand í landinu. Truss mætti fyrst í morgun í viðtöl á nokkrum svæðismiðlum BBC og varði stefnu stjórnar sinnar. Hún sagði ekki standa til að breyta henni.