Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vél Icelandair enn þá á Heathrow og í rannsókn lögreglu

29.09.2022 - 17:15
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Flugvél Icelandair sem lenti í árekstri við suður-kóreska farþegaflugvél á Heathrow-flugvelli í London í gærkvöld er enn á stæði á vellinum. Lögregluyfirvöld þar ytra rannsaka nú áreksturinn. Óljóst er hvenær Icelandair fær vélin afhenta að nýju. Farþegar sem voru um borð í vélinni þegar áreksturinn varð hafa enn ekki fengið farangur sinn

„Farangur farþega er enn þá um borð þar sem lögregla er með málið í rannsókn. Við bíðum bara eftir að lögregla gefi okkur leyfi til þess að losa farangurinn og koma honum til farþega,“ segir Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Icelandair.

Áreksturinn varð þegar vængendi flugvélar í eigu Korean Air rakst utan í hliðarstél Boeing 757 -vél Icelandair þar sem hún var kyrrstæð og beið eftir að geta tengst hliði. Engan sakaði en óljóst er hversu mikið tjón er á vélinni eða hver ber kostnaðinn. „Það er auðvitað beinn og óbeinn kostnaður sem að hlýst af þessu og við verðum bara að sjá hvernig það verður þegar við fáum vélina afhenda.“

Icelandair hefur sent starfsmann til London til að reyna að koma farangri sem fyrst til farþega þegar lögregla veitir aðgang að honum. Að sögn Guðna hefur ekki orðið mikil röskun á flugáætlun félagsins vegna atviksins. Aðrar vélar hafi verið settar á þau verkefni sem vélin var áætluð á.

Farþegar sem áttu að fara með vélinni aftur til Íslands í gær urðu eftir í Bretlandi á nótt. „Þeim var komið á hótel í London og sett var upp áætlun þar sem þeim var komið í flug sem fór um hádegisbil í dag. Önnur frá Heathrow og hin frá Gatwick.“