Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tjón á björgunarsveitabíl eftir óveðrið fæst ekki bætt

29.09.2022 - 23:20
Mynd: Hinrik Ingólfsson / Aðsent
Miklar skemmdir urðu á bíl björgunarsveitarinnar Vopna á Vopnnafirði í aftakaveðri sem gekk yfir landið í upphafi vikunnar. Björgunarsveitarfólkið segist aldrei hafa lent í öðrum eins veðurofsa og tjónið hlaupi líklega á milljónum króna.

Sjálfboðaliðar úr Vopna voru kallaðir út vegna óveðursins á sunnudag og voru sendir til að loka vegi upp á Möðrudalsöræfi. Þeir sóttu ferðafólk í Langadal, þar sem ökumenn voru komnir í vandræði vegna hvassviðrisins. Ætlunin var að keyra með þau í skjól frá óveðrinu inn í Möðrudal, en þegar komið var að veitingastaðnum Beitarhúsinu við afleggjarann að Möðrudal, skall á með svo miklu hvassviðri að í bílnum sprungu rúður og lakk og búnaður skemmdist illa.

Fok á sandi og grjóti ekki bótaskylt

Tjónið varð vegna foks á lausum jarðvegi, en það tjón er þess eðlis að björgunarsveitin sér ekki fram á að geta sótt bætur hjá tryggingafélögum, þar sem slíkar skemmdir eru almennt undanþegnar bótaskyldu.

„Björgunarsveitir eru með einar bestu tryggingar sem mögulega eru, en það eru bara engar tryggingar sem tryggja tjón sem þetta, því miður“ sagði Karen Ósk Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.

Líklega mun björgunarsveitin Vopni, í samstarfi við Landsbjörg, sjálf fjármagna viðgerðirnar. Margar bílaleigur urðu einnig fyrir töluverðu fjárhagslegu tjóni eftir veðurofsann.

Bílar frá bílaleigu Akureyrar urðu ansi illa úti í óveðrinu uppi á Möðrudalsöræfum, eins og sjá má. Rúður brotnuðu, allt lakk, plast og hlífar er sandblásið og meira og minna ónýtt. Þessar skemmdir urðu vegna foks á lausum jarðefnum og fást því ekki bættar frá tryggingafélögum, ekki frekar en skemmdirnar á bíl björgunarsveitarinnar Vopna.