Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ríkið kaupir hluta nýs Landsbankahúss á sex milljarða

Mynd með færslu
Tölvuteiknuð mynd af nýjum höfuðstöðvum Landsbankans, sem á að taka í notkun fyrir árslok. Sá hluti hússins sem ríkið kaupir verður tilbúinn eftir áramót.. Mynd: Landsbankinn - RÚV
Íslenska ríkið hefur fest kaup á tæplega sex þúsund fermetra byggingu, Norðurhúsi, sem er hluti af nýframkvæmdum Landsbankans við Austurhöfn. Fyrirhugað er að utanríkisráðuneytið flytjist í bygginguna auk þess sem nýta á hluta hennar undir samtímalistasýningar Listasafns Íslands.

Ríkið kaupir bygginguna af bankanum, en nýjar höfuðstöðvar hans verða í hinum hluta hússins. Kaupverðið er sex milljarðar króna. Landsbankinn er að fullu í eigu ríkisins og verður greitt fyrir með andvirði sérstakrar viðbótararðgreiðslu bankans til ríkisins. Húsið verður að fullu innréttað við afhendingu.

Heimildir fréttastofu herma að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hafi bitist um hvort ráðuneytið fengi bygginguna til umráða. Að endingu hafi ráðuneyti Þórdísar orðið ofan á.

Kjarninn segist hafa heimildir fyrir því að kaup hússins hafi verið umdeild innan ríkisstjórnarinnar í sumar. Sumum ráðherrum hafi ekki þótt forsvaranlegt að verja jafnmiklu fé í byggingu fyrir æðstu stjórnsýslu á sama tíma og aðhaldsaðgerðir eru boðaðar í ríkisfjármálum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Landsbankinn - RÚV
Ríkið kaupir Norðurhúsið, sem er nær Hörpu. Flatarmálið er um 6.000 fermetrar.

 

Þrjár nýbyggingar æðstu stjórnsýslu

Tvær aðrar byggingar fyrir æðstu stjórnsýslu eru í bígerð. Framkvæmdir við 6.400 fermetra nýbyggingu Alþingis eru langt komnar, en til stendur að taka hana í notkun næsta haust. Kostnaður við hana er áætlaður 5,6 milljarðar króna. Hún á að gjörbylta starfsumhverfi Alþingis, en sagt er að milljónir sparist í leigu, þar sem starfsemi þingsins er nú á víð og dreif um Austurvöll, gjarnan í leiguhúsnæði.

Hin nýframkvæmdin er viðbygging við Stjórnarráðið. Hún á að leysa af hólmi þau rými sem forsætisráðuneytið hefur á leigu í Lækjargötu og á Hverfisgötu, enda rúmast starfsemi forsætisráðuneytisins síður en svo öll í Stjórnarráðsbyggingunni. Þeim framkvæmdum hefur að vísu verið seinkað um eitt ár sem lið í aðhaldsaðgerðum.