Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lýsir broti í sinn garð og segir SÍ ekki hafa aðhafst

Mynd: Aðsend mynd / Aðsend mynd
Bjarni Frímann Bjarnason, fyrrverandi tónlistarstjóri Íslensku óperunnar og fyrrverandi aðstoðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, segir að stjórnendur hljómsveitarinnar hafi hylmt yfir kynferðisbrot sem hann varð fyrir af háttsettum starfsmanni sveitarinnar.

Hann nefnir fyrrverandi framkvæmdastjóra hljómsveitarinnar, Örnu Kristínu Einarsdóttur, í því sambandi og segir að hún hafi ekkert aðhafst í málinu þegar hann opnaði sig um meint brot við hana. Bjarni lýsir því að það hafi verið í fyrsta sinn sem hann sagði einhverjum frá, öðrum en sínum allra nánustu. 

Einnig nefnir Bjarni Frímann Láru Sóleyju Jóhannsdóttur, núverandi framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem og Evu Ollikainen, núverandi aðalhljómsveitarstjóra. Hann segir að þær hafi heldur ekkert aðhafst þegar hann sagði þeim frá meintu broti. 

Bjarni Frímann segir sögu sína í stöðuuppfærslu á Facebook. Hann sakar þar Árna Heimi Ingólfsson, fyrrverandi tónlistarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands, um að hafa brotið á sér kynferðislega. Bjarni Frímann var 17 ára nemandi 35 ára gamals Árna Heimis við Listaháskóla Íslands þegar meint brot átti sér stað. 

Í yfirlýsingu sinni segir Bjarni Frímann að hann hafi mátt þola yfirhylmingu og fálæti af hálfu stjórnenda hljómsveitarinnar. Hann hafi hingað til reynt að halda málinu innan hljómsveitarinnar og veigrað sér við að bera sögu sína á torg en nú geti hann ekki orða bundist. 

„Vitneskjan um það sem ég er hér með að opinbera hefur verið til staðar hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands í mörg ár án þess að stjórnendur hafi hirt um að gera neitt með hana. Fullreynt virðist vera að á því verði nokkur breyting. Þess vegna finn ég mig knúinn til þess að opinbera málið og segja frá því að Árni Heimir Ingólfsson braut á mér kynferðislega á heimili sínu þegar ég var nemandi hans í Listaháskóla Íslands. Ég var 17 ára, hann var 35 ára. Hann var til langs tíma tónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands og um leið formaður verkefnavalsnefndar hennar.“

Segist ekki vera eini þolandinn

Bjarni Frímann hóf störf hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2018. Hann segir að fljótlega hafi orðið ljóst að Árni Heimir hefði mikið að gera með hans tækifæri innan hljómsveitarinnar og starfsframa. Hann segist nú skilja hvernig hann hafi þurft að líða fyrir það á margan hátt. Í fyrra lét Bjarni Frímann af störfum hjá Sinfóníuhljómsveitinni og hann vonar að nú fái hans fyrrum samstarfsfélagar útskýringu á brotthvarfi hans þaðan. 

Hann segir einnig að Árni Heimir hafi nýtt sér yfirburðastöðu innan tónlistarheimsins gagnvart fleiri ungum tónlistarmönnum. Hann segir að margar frásagnir tengist störfum Árna Heimis fyrir kór Menntaskólans við Hamrahlíð.

Árni Heimir lét af störfum hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands í vor. Bjarni Frímann segir að þó litið hafi út fyrir að Árni Heimir væri að hverfa til annarra starfa viti tónlistarheimurinn betur. Hann segir hann hafa hrökklast burt vegna endurtekins ofbeldis gagnvart ungu fólki í krafti valdastöðu sinnar. Það hljóti síðan að teljast alvarleg mistök að Sinfóníuhljómsveitin hafi skýlt Árna Heimi á meðan hann var þar við störf en einnig þegar hann lét af þeim. Slík mistök megi ekki endurtaka sig, segir Bjarni Frímann, og þess vegna segi hann sögu sína nú.

Biðst afsökunar og segist stunda sjálfsvinnu

Árni Heimir sendi frá sér yfirlýsingu á Facebook í kjölfar yfirlýsingar Bjarna Frímanns, sem sjá má hér að neðan. Þar segist hann hafa verið í mikilli sjálfsvinnu undanfarin tvö ár eftir að hafa farið yfir mörk annarra án þess að gera sér grein fyrir því.

Hann biður þá sem hann hefur hegðað sér ósæmilega gegn innilega afsökunar. Hann vonar að aðrir sjái hve alvarlega hann tekur málið og er staðráðinn í að halda áfram að vinna í sjálfum sér. Allir fái verkefni í lífinu og þetta sé það stærsta í lífi hans.

Segir ástæðu til að skoða málið 

Fréttastofa hefur ekki náð tali af Árna Heimi þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Lára Sóley Jóhannsdóttir, segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu að hljómsveitin hafi tekið málið alvarlega þegar það kom á hennar borð. Hljómsveitin vilji aðstoða fólk á þeirra forsendum og bregðast við málum í samræmi við óskir þolenda eftir fremsta megni. Einnig sé hljómsveitin með mjög trausta ferla til að taka á málum sem þessum, en ef þolandi vilji ekki að farið sé lengra með málið þá geti það takmarkað möguleika sveitarinnar í stöðunni. Miðað við færslu Bjarna sé nú ástæða til að skoða málið að nýju. 

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV
kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV