Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Búast við hamfaraflóðum og mikilli eyðileggingu

29.09.2022 - 03:10
epa10211744 A handout image captured by NOAA's GOES-16 satellite and made available by the Regional and Mesoscale Meteorology Branch (RAMMB) of the National Oceanic and Atmospheric Administration (NOAA) National Environmental Satellite, Data, and Information Service (NESDIS) shows Hurricane Ian approaching the US state of Florida, 28 September 2022, after making landfall in western Cuba on 27 September 2022. Hurricane Ian, a Category-4 hurricane over the Gulf of Mexico with sustained winds reaching 155 miles per hour, is expected to strengthen before heading toward Florida's west coast, according to the National Hurricane Center (NHC).  EPA-EFE/RAMMB/NOAA/NESDIS HANDOUT -- MANDATORY CREDIT: RAMMB/NOAA/NESDIS -- HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - RAMMB/NOAA/NESDIS
Fellibylurinn Ian gekk á land í Flórída í Bandaríkjunum í gærkvöld og fer þar hamförum. Hann sótti mjög í sig veðrið á leiðinni norður yfir Mexíkóflóa frá Kúbu og var orðinn öflugur fjórða stigs bylur þegar hann tók land nærri borginni Fort Myers í Flórída suðvestanverðu um klukkan 15 að staðartíma. Vindur mældist þá allt að 70 metrar á sekúndu. Aðeins hefur dregið úr ofsanum eftir því sem hann fetar sig lengra inn í land og telst Ian nú þriðja stigs fellibylur.

Milljónir án rafmagns og mikil flóð

 Rafmagn er farið af hátt í tveimur milljónum heimila í Flórída og fregnir af miklu tjóni á húsum og öðrum mannvirkjum hafa þegar borist frá mörgum bæjum og borgum í ríkinu vestanverðu, bæði vegna veðurhæðarinnar og mikilla flóða. Þau stafa annars vegar af úrhellinu sem fylgir bylnum hins vegar af hárri sjávarstöðu sem við þessar aðstæður skapar hættu á sjóflóðum.

Ron de Santis, ríkisstjóri Flórída, segir sjóflóðin að líkindum þegar hafa náð hámarki og býst við gríðarmiklu tjóni. Nær þremur milljónum Flórídabúa var gert að yfirgefa heimili sín og koma sér í öruggt skjól í aðdraganda ofsaveðursins.

Hættuástand næsta sólarhringinn 

Í borginni Tampa við samnefndan flóa hvatti borgarstjórinn Jane Castor borgarbúa til að halda sig heima í nótt. Þótt ekki væri ætlunin að lýsa yfir útgöngubanni, líkt og gert hefur verið í nokkrum borgum og bæjum, þá væri einfaldlega lífshættulegt að vera á ferli í borginni næsta sólarhringinn. 

Neyðarástand í fimm ríkjum

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Flórída vegna fárviðrisins. Það hafa ríkisstjórar Georgíu, Virginíuríkis og Norður- og Suður-Karólínu líka gert, enda búist við að Ian muni valda umtalsverðum usla á leið sinni norður í land áður en hann koðnar niður. Er það ekki síst vatnsveðrið sem fylgir honum sem óttast er að verði til vandræða.