Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Andlát: Svavar Pétur Eysteinsson, Prins Póló

29.09.2022 - 16:10
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Tónlistarmaðurinn Svavar Pétur Eysteinsson, þekktur undir listamannsnafninu Prins Póló, er látinn 45 að aldri. Svavar Pétur greindist með krabbamein á fjórða stigi árið 2018.

Svavar Pétur lauk námi í grafískri hönnun við Listaháskólann en hitti þjóðina í hjartastað með margverðlaunaðri tónlist sinni og textum. Sköpunarkraftur hans blómstraði í myndlist, tónlist, matarframleiðslu, grafískri hönnun, fatahönnun og ljósmyndun svo eitthvað sé nefnt. Og ætíð var hversdagsleikinn í forgrunni. 

Svavar Pétur spilaði meðal annars með hljómsveitunum Múldýrinu, Rúnk og Skakkamanage, en í seinni tíð samdi hann og gaf út tónlist undir listamannsnafninu Prins Póló. Þá hafa veggspjöld með hendingum úr lagatextum hans notið mikilla vinsælda. Svavar var líka frumkvöðull á sviði matvælaframleiðslu og setti á markað Bulsur og Bopp.

Svavar Pétur og eiginkona hans Berglind Häsler sinntu lengi ferðaþjónustu, matarframleiðslu og menningarstarfsemi að Karlsstöðum í Berufirði. Hann lætur jafnframt eftir sig þrjú börn; Hrólf Stein, Aldísi Rúnu og Elísu.

Svavar Pétur háði erfiða baráttu við krabbamein síðustu ár ævi sinnar og ræddi um hana í fjölmiðlum, meðal annars í fréttaskýringaþættinum Kveik. Hann hélt áfram að skapa svo lengi sem hann gat; síðast setti hann upp myndlistarsýninguna Hvernig ertu? og sendi frá sér samnefnda plötu í sumar. 

Mynd: RÚV/Ingvar Haukur Guðmundsson / RÚV

Prins Póló vakti jafnan mikla athygli með tónlist sinni. Hann flutti meðal annars lag sitt Tipp Topp á Aðventugleði Rásar 2 í desember síðastliðnum.

Mynd: RÚV / RÚV

Rætt var við Svavar Pétur og Gunnar Lárus Hjálmarsson í Rokklandi á Rás 2 í haust, í kjölfar þess að tvö lög úr smiðju Prins Póló og S.H. Draums litu dagsins ljós. 

Prins Póló var tíður gestur á sjónvarpsskjánum og var með hljómsveitinni Hjálmar í Vikunni með Gísla Marteini síðasta vetur og fluttu lagið Grillið inn.

Mynd: RÚV / RÚV

Fréttastofa hitti Svavar Pétur á degi íslenskri tungu fyrir tveimur árum, þar sem hann sagðist meðal annars stundum grípa til slangurorðabókarinnar við textasmíð.

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV