Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vél Icelandair lenti í árekstri á Heathrow

28.09.2022 - 21:21
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Flugvél Icelandair lenti í árekstri við suður-kóreska farþegaflugvél á Heathrow-flugvelli í London í kvöld.

Engan sakaði en farþegar voru enn um borð þegar áreksturinn varð. Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við fréttastofu að stél vélarinnar hafi skemmst og viðgerða sé þörf.

Ómögulegt sé þó að leggja mat á tjónið að svo stöddu. Guðni segir jafnframt að vél Icelandair hafi verið kyrrstæð þegar áreksturinn varð.

Flugi vélarinnar hingað til lands hefur verið aflýst og unnið er að því að koma strandaglópum til síns heima. Rannsókn málsins er þegar hafin.

Sigrún Dóra Bergs, sem var um borð í vélinni þegar áreksturinn varð, segir við fréttastofu að hristingur hafi fundist í vélinni líkt og um ókyrrð væri að ræða. Farþegar hafi síðan áttað sig á að eitthvað hafi komið fyrir þegar blikkljós viðbragðsaðila sáust út um glugga vélarinnar.

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV