„Það þótti mjög fínt að vera símamær á þessum tíma“

Mynd: Samsett / RÚV

„Það þótti mjög fínt að vera símamær á þessum tíma“

28.09.2022 - 12:16

Höfundar

„Við sátum þrjár, ein með Reykjavík, ein með bæinn og ein með landið allt. Svo erum við bara með svona línur að stinga í og hlusta,“ segir Þóra Bergný Guðmundsdóttir arkitekt. Hún var ein þeirra kvenna sem sáu um að tengja fólk símleiðis í húsinu sem erfingjar Ottós Wathnes á Seyðisfirði seldu Norræna símafélaginu.

Austur á landi er langur djúpur fjörður sem nefnist Seyðisfjörður og flestir Íslendingar þekkja vel. Þéttbýlismyndun hófst þar í lok nítjándu aldar, aðallega fyrir tilstilli Norðmanna sem veiddu þar síld og versluðu. Bærinn er í dag rómaður fyrir bæði stórbrotið landslag og glæsileg timburhús.

Í upphafi voru lítil kot hér og þar um fjörðinn. Meginþungi byggðarinnar þegar kaupstaðurinn var að myndast var á Öldunni en þar bjó elítan að miklu leyti samkvæmt Þóru Bergnýju Guðmundsdóttur arkitekt. „Þar var sýslumaðurinn, svona danska slektið og íslenskir embættismenn,“ segir hún. Á Búðareyrinni bjuggu Norðmenn mikið til og þar var því töluð norska en lengra út með firðinum voru Íslendingar. „Það var talað jöfnum höndum íslenska, danska og norska í þessum kaupstað sem verður til þegar allar byggðir eru sameinaðar 1885.“

Norðmaðurinn Otto Wathne hefur verið kallaður faðir Seyðisfjarðar, og ekki að ástæðulausu. Otto fæddist í Manndal í Noregi í byrjun árs 1843 en kom til Íslands ungur maður og seldi Íslendingum timbur. Hann uppgötvaði að hér væru fengsæl síldarmið og settist að á Seyðisfirði árið 1880. Þá bjó hann meðal annars í húsi sem stendur enn þar sem var bæði íbúð og síldarsöltun. „Hann var magnaður og sagan elskar hann. Ég hugsa að við myndum elska hann í dag líka. Hann var flottur og ekki bara að graðka undir sjálfan sig heldur líka hlúði hann að samfélaginu,“ segir Þóra Bergný.

Otto hafi sýnt samfélaginu umhyggju og var fyrir það mikils metinn. „Hann byggði brú yfir ána, vita á Dalatanga og svo byggði hann þetta dásamlega hús hérna sem seinna meir í sögunni nýttist okkur sem félagsheimili, netagerðarverkstæði og allur skrambinn,“ segir Þóra.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ottó bjó sjálfur í húsinu með fjölskyldu sinni og vinnumönnum eða þar til hann veiktist ungur og andaðist á skipi sínu haustið 1898. Ottós var sárt saknað eftir sinn dag á Seyðisfirði samkvæmt Þóru og þótti mörgum sem slokknað hefði á aflvél bæjarins þegar hann dró síðasta andann. „Seyðfirðingar fóru í langar minningarskrúðgöngur um Ottó Wathne. Hann var elskaður af bæjarbúum og álitinn faðir byggðarinnar.“

Eftir andlát hans var stunduð í húsi hans sjávartengd starfsemi en á stríðsárunum voru á loftinu haldnar fjölsóttar kvikmyndasýningar, böll og veislur. Erfingjar Ottós seldu svo norræna ritsímafélaginu húsið árið 1906. Þá var sæstreng á milli Danmerkur, Íslands og Færeyja komið á land á Seyðisfirði. Landið komst í samband við umheiminn og var haldin mikil veisla á Seyðisfirði 25. ágúst 1906. 

Síðar kom talsíminn og á þeim tíma var Þóra sjálf starfandi í húsinu sem símamær. „Það þótti mjög fínt að vera símamær á þessum tíma. Við sátum þrjár, ein með Reykjavík, ein með bæinn og ein með landið allt. Svo erum við bara með svona línur að stinga í og hlusta,“ rifjar Þóra upp. Þá var algengt að sjómennirnir pöntuðu símtal til að tala við konurnar sínar. „Þá voru þeir látnir bíða, þær fóru inn í þennan klefa og svo fengu þeir samband við frú þetta eða hitt. Svo vorum við galandi inn eftir þrjár mínútur: Eitt viðtalsbil, tvö viðtalsbil.“

Á þessum tíma voru auðvitað engir GSM-símar svo hlutverk símadamanna var afar mikilvægt. „Svo vissum við náttúrulega allt,“ segir Þóra glettin.

Hér er þátturinn Bæir byggjast í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Allt í einu rís þetta hús á hæðinni og þvílík höll!“

Menningarefni

Auðvelt að elska yfir þröngar götur Ísafjarðar