Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stórbruni á Egilsstöðum og reyk leggur yfir bæinn

28.09.2022 - 16:48
Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Eldur logar í húsnæði þvottahússins Vasks á Egilsstöðum. Slökkvilið kom á vettvang á fimmta tímanum og reynir nú að varna því að eldur komist í samliggjandi húsnæði Landsnets.

Hjalti Bergmar Axelsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar á Austurlandi, biðlar til íbúa á Egilsstöðum að koma ekki að vettvangi. Viðbragðsaðilar eru að störfum og vont sé ef fólk þvælist fyrir. Þá er íbúum nálægt húsakynnum Vasks ráðlagt að loka gluggum til þess að reykur berist ekki inn til fólks. 

Ekkert er enn vitað um eldsupptök. Hjalti segir við fréttastofu að um stórbruna sé að ræða. Slökkviliðsmenn hafa meðal annars verið að tína gaskúta úr húsakynnum Landsnets til þess að fyrirbyggja sprengingar.

Dælubíll Isavia frá Egilsstaðaflugvelli hefur verið færður á vettvang og komið í gagnið.

Rúnar Snær Reynisson, fréttamaður RÚV á Austurlandi, sagði í útvarpsfréttum klukkan fimm að mikill svartur reykjarmökkur leggi yfir alla Egilsstaði.

„Það má segja að hálft húsið hafi verið alelda hér á tímabili og slökkviliðinu gekk illa til að byrja með að minnka eldinn. Það var í raun ekki fyrr en slökkvilið Isavia á Egilsstaðaflugvelli kom á staðinn líka með mjög öflugar dælur sem það fór eitthvað að sljákka í eldinum. Og mér sýnist svona á öllu að slökkviliðinu sé að takast að slökkva í þeim hluta hússins sem snýr að Landsneti. En þetta er gríðarlega mikill eldur, húsið er gjörsamlega alelda.“

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að dælubíll félagsins sé kallaður til á grundvelli samkomulags við slökkviliðsstjóra. Isavia sé ljúft og skylt að svara kallinu við aðstæður sem þessar. Þá hefur Guðjón eftir flugumferðastjórum á Egilstaðaflugvelli að reykjarmökkurinn sem leggur yfir bæinn hafi ekki áhrif á flugumferð. Skyggni sé gott og aðstæður til flugtaks og lendinga sömuleiðis.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV