Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rekinn fyrir niðrandi ummæli um kvenkyns keppendur

28.09.2022 - 23:31
Erlent · Skák
Mynd með færslu
 Mynd: Barði Stefánsson - RÚV
Alþjóðaskáksambandið rak í dag sjónvarpslýsanda sem hafði í frammi niðrandi ummæli um kvenkyns keppendur á stigamóti í Astana í Kasakstan. Lýsandinn spurði í beinni útsendingu hvort konur ættu yfir höfuð erindi í skákíþróttina.

Hinn ísraelski Ilya Smirin var fyrir nokkrum áratugum talinn einn af 20 bestu skákmönnum í heimi. Hann var að lýsa í skák í fyrsta sinn í sjónvarpi á ensku, í fulltingi Fionu Steil-Antoni stórmeistara frá lúxemborg, sem gaf ekki mikið fyrir orðaval Smirins.
 
Smirin sagði um annan keppandann, hina kínversku Zhu Jiner, þegar rætt var hvort hún gæti orðið stórmeistari í náinni framtíð: „Hún er kvenkyns stórmeistari eða hvað? Af hverju vill hún hljóta sömu nafnbót og karlkyns spilarar? Kannski er skák bara ekkert fyrir konur.“ 
 
Síðar í viðureigninni sagði Smirin svo um einn keppenda: „Hún er að spila eins og karlmaður“. Þá virtist Steil-Antoni hafa fengið nóg af kollega sínum, rak ofan í hann og spurði hvað hann væri eiginlega að meina. Við því átti Smirin fá svör.
 
Fyrrum heimsmeistari kvenna í skák, Susan Polgar, krafði Smirin um afsökunarbeiðni á samfélagsmiðlum. Það gerðu fleiri konur innan skákheimsins sömuleiðis og hrósuðu Steil-Antoni fyrir að gera vel í óþægilegum aðstæðum. 
 
Alþjóðaskáksambandið sendi svo frá sér yfirlýsingu vegna málsins í dag þar sem beðist var afsökunar á ummælunum og þau sögð mjög neyðarleg. Smirin hefur nú verið rekinn, eins og fyrr segir, en hann vísar því á bug að hafa talað niður til kvenna. Hann segir í samtali við BBC að hann hafi augljóslega verið að grínast og ummæli hans geti varla talist annað en smávægileg ókurteisi.

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV