Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óttast verðbólgu ef skilagjald á gosflöskum hækkar

28.09.2022 - 18:06
Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Umhverfisráðuneytið lagðist gegn því að skilagjald á einnota umbúðum fyrir drykkjarvörur hækki um 2 krónur því það geti haft neikvæð áhrif á verðbólguþróun. Þetta kemur fram í umsögn Endurvinnslunnar um breytingar á lögum vegna fjárlaga eða hinn svokallaða bandorm.

Skilagjald á einnota umbúðum fyrir drykkjarvörur er 18 krónur og hækkað síðast í mars í fyrra. Endurvinnslan óskaði eftir að fá hækka skilagjald upp í 20 krónur um næstu áramót í samræmi við verðbólguþróun. Þessu hafnaði hins vegar ráðuneytið. Í umsögn Endurvinnslunar segir:

„Þær skýringar sem að ráðuneytið gaf fyrir því að ekki væri farið að tillögu Endurvinnslunnar hf. var sú að þeir töldu að það yrði að reyna að halda niðri verðbólgu og því ekki svigrúm til að hækka skilagjaldið“

Í umsögninni, sem Helgi Lárusson framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar skrifar undir, segir ennfremur:

„Á móti hefur Endurvinnslan hf. bent á að ætli ráðuneytið sér að fresta þessum verðhækkunum, minnki hvati til að skila og það byggist upp töluverð hækkunarþörf sem að erfitt verður að leiðrétta síðar nema í nokkrum skrefum“

Í umsögninni segir einnig:

„Þá hefur Endurvinnslan hf. bent á að þó að vissulega muni hækkun skilagjalds hafa áhrif á vísitölu, þá hafi þessi hækkun ekki áhrif á neytendur einnota drykkjarumbúða þar sem að skiljagjald er lagt á vöru sem fáist síðan endurgreitt að fullu við skil“

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir 7,7 prósenta gjaldskrárhækkunum um næstu áramót í samræmi við verðlagsþróun. Þar á meðal gjöld á áfengi, tóbak, bensín og bílum. Auður Alfa Ólafsdóttir hjá verðlagseftirliti ASÍ sagði í samtali við fréttastofu þegar frumvarpið var kynnt í byrjun september að þetta bætist ofan á þá verðbólgu sem þegar er til staðar.

Í gær kynnti svo Strætó bs. allt að 12,5 prósenta hækkun á miðaverði.