Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Olli stórtjóni á Kúbu og magnast enn á leið til Flórída

28.09.2022 - 01:40
epa10210497 Destruction and debris are seen on the street after the passage of Hurricane Ian, in Pinar del Rio, Cuba, 27 September 2022. Ian made landfall in western Cuba as a category 3 hurricane, causing considerable material damage with heavy rains and strong winds, before continuing northward toward Florida.  EPA-EFE/Yander Zamora
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Um ein milljón Kúbverja er án rafmagns eftir að fellibylurinn Ian fór hamförum á Kúbu og minnst einn maður lét lífið í veðurofsanum. Fellibylurinn stefnir nú á Flórída og sækir enn í sig veðrið á leið sinni yfir hafið. Ian var orðinn þriðja stigs fellibylur þegar hann dundi á Kúbu að morgni þriðjudags og meðalvindhraðinn var um 57 metrar á sekúndu.

Ofviðrið hamaðist á vesturströnd eyríkisins í fimm klukkustundir áður en það þokaðist aftur á haf út, og skildi eftir sig slóð eyðileggingar. Rafmagnsmöstur féllu og línur slitnuðu í látunum og úrhellið sem fylgdi storminum olli flóðum og aurskriðum víða.

Um 40.000 manns voru flutt frá vesturströndinni í öruggt skjól í neyðarskýlum á meðan verst lét. Talsvert tjón varð líka á byggingum og kona á fimmtugsaldri lést þegar heimili hennar hrundi.

Eflist enn á leiðinni til Flórída

Fellibyljastofnun Bandaríkjanna spáir því að Ian magnist upp í fjórða stigs fellibyl á ferð sinni norður yfir Mexíkóflóa til Flórída, þar sem áætlað er að hann taki land að morgni miðvikudags. Gefin hefur verið út veður-, flóða- og sjóflóðaviðvörun á stórum svæðum í ríkinu og um 2,5 milljónir Flórídabúa hafa fengið fyrirmæli um að forða sér áður en fellibylurinn skellur á, flestir þeirra við strönd Tampaflóa.

Ian verður fyrsti bylurinn til að taka land á meginlandi Bandaríkjanna á þessu fellibyljatímabili. Hann verður líka og fyrsti meiriháttar fellibylurinn til að dynja á Tampaflóa í rúmlega öld, haldi hann áætlaðri stefnu.