Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fellibylurinn Ian genginn á land í Flórída

28.09.2022 - 21:41
epa10208381 Two people ride bikes near a sign announcing the Hurricane Ian in St. Petersburg, Florida, USA, 26 September 2022. A hurricane warning and storm surge was issued for the Tampa Bay area Monday afternoon as Hurricane Ian strengthened into a category 2 hurricane, accorjding to information released by the National Hurricane Center.  EPA-EFE/CRISTOBAL HERRERA-ULASHKEVICH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fellibylurinn Ian á eftir að valda víðtækri eyðileggingu í Flórída, segir ríkisstjórinn þar. Bylurinn er þegar farinn að valda tjóni og rafmagnsleysi. Tveir létust þegar bylurinn fór yfir Kúbu og rafmagnið fór af öllu landinu.

Bylurinn fór yfir Kúbu í gær og var það einkum vesturhéraðið Pinar del Rio sem varð verst úti. Þar þurftu um 50 þúsund manns að flýja heimili sín. Tjónið þar er ekki aðeins á byggingum heldur einnig á uppskeru á til dæmis bönunum. Rafmagnið fór af öllu landinu og er víða ekki enn komið á. Tveir fórust í bylnum.

Ian jók styrk sinn áður en hann gekk á land í Flórída og er nú nálægt því að vera fimmta stigs bylur. Og yfirvöld óttast mikið tjón.

„Þetta er hamfaraveður fyrir hluta af Flórída, ekki bara suðvesturströndina heldur einnig svæði inni í landi, sem verðua fyrir áhrifunum. Þetta er óveður sem við eigum eftir að minnast í mörg ár. Þetta er sögulegur atburður,“ segir Ken Graham veðurstofustjóri Bandaríkjanna. Ron DeSantis ríkisstjóri Flórída varaði við að allt ríkið eigi eftir að finna fyrir áhrifum bylsins.

Varað er við vindhraða upp á allt að 70 metra á sekúndu. Nú síðdegis var veðrið farið að versna syðst í ríkinu og tjón hefur þegar orðið víða. Þá eru um ein milljón heimila orðin rafmagnslaus. Um 2,5 milljónum manna hefur verið gert að yfirgefa heimili sín, aðallega á strandsvæðum. 

Síðdegis var greint frá því að 23 manna væri saknað eftir að bát með flóttamönnum frá Kúbu hvolfdi við strendur Flórída en hann hafði lent í storminum. 

Spáð er að næsta sólarhringinn fari Ian fyrst meðfram vesturströndinni en síðan norðaustur yfir Flórída-skagann, þar sem óttast er að eyðilegging verði mikil. Hann heldur síðan áleiðis í átt að Georgíu og Suður-Karólínu á föstudag.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV