Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Afþreyingarfarsi sem þjónar tilgangi sínum

Mynd: Borgarleikhúsið / Borgarleikhúsið

Afþreyingarfarsi sem þjónar tilgangi sínum

28.09.2022 - 10:36

Höfundar

„Það er því ekki úr vegi að hvetja þá sem elska að hlæja sig máttlausa af hrakförum vel túlkaðra persóna, að skella sér í leikhús,“ segir leikhúsgagnrýnandi Víðsjár um leikritið Bara smástund sem sýnt er í Borgarleikhúsinu.

Nína Hjálmarsdóttir skrifar:

Orðið “farsi” samkvæmt Britannica orðabókinni var fyrst notað í tengslum við leikhús í Frakklandi á sextándu öld til að lýsa því þegar leikarar spunnu í kringum trúarleikrit og bættu þannig við þau, sem vísar þá til matargerðar þar sem farsi þýðir líka fylling. Farsi er því gamalt form, með enn þá eldri rætur, og gegnir mikilvægu hlutverki í leikhúsi, en í dag er hægt að rökstyðja að aðstæðna-kómedía sem á ensku heitir sitcom sé sjónvarpsútgáfa af farsa.

Eins og við þekkjum farsa nú til dags er hann kómískt dramaverk sem inniheldur ólíklegar kringumstæður, steríótýpíska karaktera, ýkjur og ærslaskap. Hrein skemmtun til að hlæja að og losa spennu. Stundum eru þó farsar með pólitískum undirtónum, enda er húmorinn besta leiðin til að hreyfa við áhorfendum. Sem dæmi get ég nefnt ítalska skáldið Dario Fo, en hann uppskar bæði Nóbelsverðlaun og fordæmingu frá Vatíkaninu fyrir farsa sína.

Birtingarmyndir kynjahlutverka gamaldags

Farsinn Bara smástund var frumsýndur í Borgarleikhúsinu síðastliðið föstudagskvöld, en verkið er eftir eitt fremsta leikskáld Frakka, Florian Zeller, og var frumflutt árið 2013. Við erum stödd í glæsilegri íbúð í París í samtíma okkar. Aðalpersónan hann Michel er menntaelítusnobbari sem á svo ógurlega bágt því honum langar svo að hlusta á sjaldgæfu jazzplötuna sem hann fann á markaðnum um morguninn, en fær engan frið til þess. Eiginkona hans hún Nathalie vill endilega ræða við Michel um áhyggjur sínar af hjónabandinu og syni þeirra, og að henni líði eins og líf hennar hafi enga merkingu. Smám saman byrjar allt að fara til fjandans eins og gerist í försum, með tilheyrandi misskilningi og hurðaskellum. Framhjáhald þeirra hjóna kemur upp á yfirborðið, sonur þeirra er aumingi sem hefur engan metnað fyrir framtíðinni og pípulagningamaðurinn er ekki sá sem hann segist vera. Ofan á þetta er íbúðin bókstaflega að fyllast af vatni og það flæðir niður til nágrannans. Auðvitað vekur það athygli mína að hér er pólskur karakter leikinn af Íslendingi, en kannski betra að fara ekki út í þá sálma núna.

Birtingarmynd kynjahlutverka í verkinu er gamaldags og sumar persónurnar tvívíðar staðalmyndir. Michel er tilfinningalaus og ranghvolfir augunum yfir sársauka konu sinnar nema þegar eignarhaldi hans á henni er ógnað. Kvenpersónurnar tvær eru mjög líkar, báðar vælandi á háu nótunum og hysterískar. Verkið minnir þannig á bandaríska gamanþætti í anda Everybody Loves Raymond og The King of Queens, nema bara með frönskum forréttindapésum. Þau hjónin eru svo þjökuð af heterónormatívu einkæri að þau neyðast til að fela langanir sínar og þrár. Handritið er býsna ímyndunarsnautt og fyrirsjáanlegt, áhorfandinn fær stöðug “deja vú” þar sem hann hefur séð þessar senur oft áður í öðrum búningi. Hér er á ferðinni formúlufarsi með engum pólitískum brodd í anda Dario Fo, sem kom mér á óvart í ljósi þess að leikskáldið hefur skrifað önnur marglaga og þung verk eins og Faðirinn, sem vakti mikla athygli þegar það var sett upp hér á landi árið 2017 með Eggert Þorleifssyni í aðalhlutverki.

Þýðing, leikstjórn og frábær leikur bjargar

En þrátt fyrir að mér hafi fundist handritið vera þunnt, er greinilega önnur saga þegar litið er til uppfærslunnar í heild sinni, því allt í kringum mig veltust áhorfendur um af hlátri frá byrjun til enda. Og hvað er það sem lætur farsa ganga vel upp?

Í fyrsta lagi er þýðing Sverris Norlands lifandi, eins og verkið hafi verið skrifað á íslensku, og passar orðavalið fullkomlega við pjattrófur í tilvistarkrísu. Leikstjórinn, Álfrún Helga Örnólfsdóttir, hefur tekið frumlegar ákvarðanir sem hæfa framgangi sögunnar og skapað góða samhæfingu á milli karaktera, en það er ekki auðvelt að leikstýra svona vitleysisgangi og miðað við viðbrögð áhorfenda hefur henni tekist vel til. Persónusköpunin er eins góð og hægt er að búast við. Leikararnir, sem öll hafa mikla reynslu af gamanleik, eru frábær í hlutverkum sínum og hafa náð þessari hárnákvæmu stillingu í hlustun sín á milli þar sem tímasetningarnar eru réttar og hver einasti brandari lendir. Þorsteinn Bachmann í aðalhlutverkinu sem sýningin hverfist um nær áhorfendum algjörlega á sitt band með blæbrigðaríkri túlkun, þannig við höldum með honum sama hvað gengur á, sama hversu sjálfhverfur hann er. Það er ekki hægt að taka augun af Sólveigu Arnarsdóttur sem húsfrúin Nathalie, þegar hún sveiflar hágæða silkisloppnum til að kynda undir merkingu orða sinna, og býr til heillandi persónu úr grunnum efnivið. Sigurður Þór Óskarsson skilar sínu sem heimski sonurinn, metalhaus og gjörningalistamaður, sem heimtar að láta kalla sig Fucking Rat, en hann á sumar sterkustu línurnar í verkinu. Sólveig Guðmundsdóttir á góða spretti sem móðursjúka hjákonan Elsa, Bergur Þór Ingólfsson er brjóstumkennanlegur sem hinn asnalegi besti vinur Pierre og Jörundur Ragnarsson er gott mótvægi sem hinn lúðalegi pólsk-franski Pavel, sem kann ekki að lesa í félagslegar aðstæður og enginn tekur mark á. En eftirminnilegastur er þó sá sem hefur fæstu línurnar, leikarinn Vilhelm Neto sem er nýlegur á sviði Borgarleikhússins, í hlutverki píparans Léos. Innkomur hans eru óborganlegar og afhjúpa vitleysuna í verkinu, en senan hans þar sem hann ljóstrar upp leyndarmálum sínum er eins og masterklassi í gríni og lét allan salinn, að mér meðtaldri, engjast um af hlátri.

Aðdáunarverð útkoma

Það sem heillaði mig þó mest við uppfærsluna var sviðsmynd og búningar Helgu I. Stefánsdóttur, sem lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar ýtir vel undir. Hver persóna hefur sinn einkennislit og klæðist honum frá toppi til táar, í fötum sem undirstrika þjóðfélagsstöðu þeirra og smekk. Þannig er Elsa hjákona í gulum silkikjól og ullarkápu, Fucking Rat er í svörtum tættum gallabuxum með þykkan augnblýant, og Léo píparinn okkar í grænum skítugum smekkbuxum. Íbúð þeirra hjóna ber þess vott um að þau tilheyra yfirstéttinni og hafa dálæti á dýrum listaverkum og nýjustu hönnun. Nema að sviðsmyndin ýkir klisjuna, með alltof stórri afrískri styttu og fáránlegum froðuplasts-skúlptúr. Með því að dansa á línunni nær sviðsmyndin þannig að brýna persónurnar, og dýpka sýninguna.

Það er aðdáunarvert hvað flytjendum og aðstandendum Bara smástund hefur tekist að búa til úr þunnu efni. Hér er á ferðinni afþreyingarfarsi sem þjónar tilgangi sínum, hreinasta skemmtun sem hægt er að njóta í hugsunarleysi, og skilur lítið eftir sig, enda er það ekki ásetningurinn. Það er því ekki úr vegi að hvetja þá sem elska að hlæja sig máttlausa af hrakförum vel túlkaðra persóna, að skella sér í leikhús.

Tengdar fréttir

Leiklist

„Hvað er eiginlega í gangi í Þjóðleikhúsinu?“

Dans

Listin að njóta sín í bílakjallara í Hamraborg

Leiklist

Shakespeare hefur aldrei verið svona spennandi