Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

50 óbreyttir borgarar horfnir eftir árás vígamanna

28.09.2022 - 05:25
Mynd með færslu
Róstusamt hefur verið í Búrkína Fasó um langt skeið. Hér bera hermenn fallinn félaga sinn til grafar eftir hryðjuverk í höfuðborginni Ouagadougou árið 2018 Mynd:
Um fimmtíu óbreyttra borgara er saknað eftir árás vígasveita íslamista á bílalest í norðanverðu Búrkína Fasó. Ríkisstjórn landsins greindi frá þessu í gær og staðfesti að ellefu stjórnarhermenn hefðu fallið í árásinni, sem gerð var á mánudag. „Bílalest, sem flutti nauðsynjar til bæjarins Djibo, var skotmark níðingslegrar og villimannslegrar árásar árásar,“ sagði talsmaður ríkisstjórnarinnar, Lionel Bilgo á fréttafundi.

Rændu völdum og lofuðu að uppræta vígasveitir íslamista

Hershöfðinginn Paul-Henri Sandaogo Damiba leiddi valdarán hersins í þessu vestur-afríska ríki í janúar og er nú æðsti valdamaður þess. Hann og fylgismenn hans réttlættu valdaránið með getuleysi þáverandi stjórnvalda við að ráða niðurlögum vígasveita íslamista sem árum saman hafa herjað á jafnt almenning sem öryggissveitir og yfirvöld í landinu af mikilli grimmd.

Eftir valdatökuna hétu þeir því  að ráða á þessu skjóta bót. Það hefur ekki gengið eftir enn og vígasveitir öfga-íslamista með tengsl við hvorutveggja al Kaída og Íslamska ríkið vaða enn uppi.

Þúsundir óbreyttra borgara hafa fallið og um tíu milljónir karla, kvenna og barna hrökklast frá heimilum sínum vegna vargaldarinnar, sem geisað hefur linnulítið frá 2015.