Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

33 milljónir Brasilíumanna lifa við hungurmörk

epa10209674 Volunteers from the Non-Governmental Organization Franciscan Solidarity Association (SEFRAS) distribute food to homeless people in Rio de Janeiro, Brazil, 20 September 2022 (Issued 27 September 2022). The presidential campaigns in Brazil focused on 33 million poor people affected by hunger, a situation that has not changed despite changes in government.  EPA-EFE/ANDRE COELHO
Sjálfboðaliðar kaþólskra góðgerðasamtaka undirbúa matardreifingu til heimilislausra í Ríó de Janeirp. Mynd: EPA-EFE - EFE
Rúmlega 33 milljónir Brasilíumanna búa við svo þröngan kost eftir tveggja ára heimsfaraldur, mikið atvinnuleysi og óðaverðbólgu að þær hafa ekki aðgang að nægum mat alla daga vikunnar og teljast lifa við hungurmörk. Það eru 14 milljónum fleiri en fyrir tveimur árum og nær 23 milljónum fleiri en 2018, samkvæmt nýrri rannsókn brasilísku samtakanna PENSSAN sem rannsaka málefni tengd fæðu og fæðuöryggi í Brasilíu.

Frá þessu er greint á vef brasilíska blaðsins Globo. Þetta þykir mikið áhyggjuefni fyrir forsetann Jair Bolsonaro, sem nýtur mun minna fylgis í skoðanakönnunum en helsti keppinautur hans í fyrri umferð forsetakosninganna næsta sunnudag.

Bráðnauðsynleg „Brasilíuhjálpin“ dugir ekki til

„Brasilíuhjálpin“, nýtilkomin fjárhagsaðstoð ríkisstjórnar Bolsonaros sem hann hefur flaggað mjög í kosningabaráttunni virðist ekki megna að breyta því, samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins NRK um málið.

Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að Bolsonaro fái 33 - 35 prósent atkvæða á sunnudaginn. Sósíalistinn og fyrrverandi forsetinn Lula fengi samkvæmt sömu könnunum allt að 50 prósentum atkvæða, sem myndi þýða að hann yrði réttkjörinn forseti strax í fyrstu umferð og ekki þyrfti að kjósa á milli þeirra Bolsonaros í annarri umferð.

Um 20 milljón brasilískar fjölskyldur þiggja Brasilíuhjálpina, sem nemur jafnvirði rúmlega 16.000 íslenskra króna á mánuði og er í mörgum tilfellum einu tekjur þessa fólks. En móttökurnar eru engu að síður hálfvolgar, segir í frétt NRK.

„Við treystum ekki Bolsonaro,“ segir Silvia Barbosa í samtali við tíðindamann NRK. „Hann hefur aldrei áður sýnt okkur áhuga. Hann gefur okkur peninga núna. En ég er viss um að hann hættir því ef hann verður endurkjörinn.“