Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Miklir möguleikar þótt hér sé ekki draumaland eplatrjáa

27.09.2022 - 18:07
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Háuppskerutími epla er um þessar mundir. Afrakstur þessa árs er undir meðallagi en eplabóndi á Akranesi spáir að næsta ár verði gjöfulla. Möguleikarnir séu heilmiklir þótt Ísland sé kannski ekki draumaland eplatrés.

Í bakgarði á Akranesi leynist eins konar gnægtahorn móður náttúru þar sem má finna alls kyns ber, grænmeti og ávexti. Flest eru eplatrén. Jón Þórir Guðmundsson garðyrkjufræðingur er með hátt í fjörutíu eplayrki sem hann hefur ræktað í rúm tuttugu ár. Góðu árin gefa af sér upp undir fimm hundruð epli. Nú er háuppskerutími.

„Mér sýnist þroskunartími vera nokkuð í meðalári en magnið er töluvert minna en í góðum árum. Kannski þriðjungur eða helmingur af góðu ári.“ 

Rigningarsumarið í fyrra hafði áhrif á blómgun og þar með eplamagnið sem fékkst að þessu sinni. Trén eru síðan farin að búa sig undir það næsta og blómknapparnir lofa góðu. 

„Ég spái góðu ári á næsta ári og vonast til þess að það verði yfir meðallagi. En það skýrist náttúrulega á næsta ári hvernig það verður en undirbúningurinn sýnist mér ágætur.“ 

Sumir myndu telja ómögulegt að rækta eplatré á Íslandi. En það er ekki satt?

„Nei, nei. Það er ekkert ómögulegt. Þetta er kannski ekki draumaland eplatrés, ég reikna ekki með því. En það er ýmislegt hægt ef trén eru góð og staðsetningin vel valin og eitthvað hugsað um þau þá hefur það sýnt sig að við höfum heilmikla möguleika.“ 

Yrki af norrænum slóðum hafa reynst best.

„Þau eru nokkur sem eru uppskerumikil. Það eru til dæmis tvö sem við erum með hérna. Þetta eru norsk tré. Þetta eru norskar lókal sortir sem hafa verið ræktaðar lengi. Við sjáum að þetta er að verða nokkuð þroskað. Þegar það losnar þokkalega af trénu þá eru þau orðin þroskuð, sko. Þarf ekki að taka þau með miklum átökum.“