Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lilja sagðist aldrei harma ráðninguna

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, viðurkennir að hafa vanmetið þörfina á því að auglýsa stöðu þjóðminjavarðar. Þetta sagði hún í ræðu á Safnaþingi á Austfjörðum í síðustu viku. Lilja segir fullyrðingar um að hún hafi sagst harma ráðninguna rangar.

Í forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag sagði að Lilja hafi í ræðunni sagst harma að hafa skipað Hörpu Þórsdóttur sem þjóðminjavörð án auglýsingar. Í samtali við fréttastofu segir Lilja að frétt Fréttablaðsins sé röng. Hún hafi aldrei sagst harma ráðninguna heldur hafi hún sagt að hún harmaði að sérfræðingar á þessu sviði hafi upplifað ráðninguna sem virðingarleysi við þeirra störf. Hún hafi hins vegar vanmetið þörfina á að auglýsa stöðuna og það þyki henni miður. Hún segir að ef hún hefði áttað sig betur á þeirri þörf hefði hún einfaldlega auglýst stöðuna. Lilja segist hafa átt einlægt samtal við safnafólk á þinginu.

Fréttastofa hefur undir höndum afrit og hljóðupptöku af ræðu Lilju á Safnaþingi. Þau gögn staðfesta frásögn Lilju og er þar hvergi að finna ummæli þess efnis að hún harmi ráðninguna sem slíka.

Lilja sagðist á þinginu bera ábyrgð á þeirri stöðu sem upp væri komin. Ekkert væri fjarri henni en að sýna safnafólki vanvirðingu. Hún væri miður sín yfir því en vonaði að hægt væri að eiga samtal um það hvernig auka mætti traust og huga að Þjóðminjasafninu í sameiningu.

Gunnhildur Kjerúlf Birgisdóttir
Fréttastofa RÚV