Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hæstdæmdi íslenski stóðhesturinn farinn úr landi

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Hæstdæmdi íslenski stóðhestur í heimi, Viðar frá Skör, var fluttur af landi brott í dag til nýrra heimkynna í Danmörku. Þjálfari hans segir hestinn einstakan og að tár kunni að falla á koddann í kvöld.

Viðar frá Skör hefur verið í þjálfun að Fákshólum. Viðar og þjálfari hans Helga Una Björnsdóttir fengu í sumar hæstu samanlagða einkunn sem stóðhestur hefur fengið í sýningu 9,04. Helga Una segir það hafa verið lærdómsríkt að  kynnast þessum afburða gæðingi.

„Ég þarf nú eiginlega ekkert að spyrja, þetta er erfiður dagur í dag.“  „Heldur betur, það er alveg þannig.“  „Þú ert búin að vera með hann og þjálfa þennan hest í árangur sem er engu líkur. Hvernig fórstu að þessu?“ ”Já, hann er einstakur. Það er bara það sem ég get sagt.
 Geðslagið, vinnusemin og svo er hann með gangtegundir sem mann hefur alltaf dreymt um að kynnast.“

„Heldurðu að þú grátir í koddann í kvöld?“ „Já, ég gæti alveg gert það. 

Flemming Fest og kona hans Gitte keyptu Viðar fyrir þremur árum þá fimm vetra og var hann þá þegar hæstdæmdi stóðhesturinn í sínum aldursflokki. Þau eiga þegar hæstdæmda fjórgangsstóðhestinn Kveik frá Stangarlæk og fjóra aðra góða. Þau hjón hafa keypt um tuttugu og fimm hesta á Íslandi. Alls eiga þau hundrað íslensk hross.

Hróður Viðars frá Skör sem  á vafalítið eftir að berast víða því erfðaefni úr honum verður sent um alla Evrópu og væntanlega líka til Bandaríkjanna og jafnvel alla leið til Ástralíu. Ef til vill þarf ekki að óttast því hann á mörg afkvæmi, bæði á leiðinni hér heima og afkvæmi sem þegar eru fædd, þótt alltaf sé erfitt að kveðja góða vini.

Karl Áki Sigurðarson er ræktandi Viðars frá Skör sem er undan Hrannari frá Flugumýri II og Vár frá Auðholtshjáleigu.
„Þetta var óvenjulegt tryppi að því leyti eða var að hann var fljótur að verða hvíllíkur höfðingi.“

Flemming Fest segir þau hjón hafa verið með íslenska hesta lengi en fyrir um fimm árum hafi þau ákveðið að hefja ræktun á íslenska hestinum.

„Við vildum bæði eignast góðar hryssur og stóðhesta frá Íslandi og það höfum við gert.“
Hvorki kaupandi né seljandi vildu segja okkur söluverðið en ljóst er að stóðhestur með hæfileika sem þessa getur kostað tugi milljóna. 

Flemming segir ávallt nokkra áhættu fylgja hestakaupum. „Við vonuðum sannarlega að hann stæði undir væntingum og það hefur Viðar sannarlega gert en það var ekki vitað þegar við keyptum hann.“

Svo kvaddi Viðar frá Skör Ísland í síðasta sinn og hélt á vit nýrra ævintýra í Danmörku.

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV