Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hækka verð á strætómiða í 550 krónur

27.09.2022 - 11:33
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Stakt fargjald með Strætó á höfuðborgarsvæðinu hækkar í 550 krónur 1. október. Þetta segir í tilkynningu á vef Strætó. Fargjaldið er nú 490 krónur og nemur hækkunin því 12,5 prósenti.

Þrátíu daga nemakort hækkar sömuleiðis. Það kostar nú 4.000 krónur en verðið verður 4.500 eftir mánaðamót.

Í tilkynningunni segir að gjaldskráin hafi verið óbreytt frá áramótunum 2020 og 2021. Verðhækkunum nú sé ætlað að mæta kostnaðarverðshækkunum á aðföngum Strætó, til dæmis hækkunum á olíuverði.

Enn fremur segir að áhrifa heimsfaraldursins gæti enn í rekstri Strætó og útlit sé fyrir að uppsöfnuð áhrif á tekjum nemi á bilinu 1.500 til 2.000 milljóna króna.

„Ávallt er reynt að stilla öllum verðhækkunum Strætó í hóf og er hækkuninni ætlað að draga úr þörf á frekari hagræðingu í leiðarkerfi Strætó á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt munu sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu skoða að styrkja rekstur Strætó frekar en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins 2022,“ segir í tilkynningunni.

Þórgnýr Einar Albertsson