Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mokaði skít og samdi hugleiðslutónlist

Mynd: Aðsend / Aðsend

Mokaði skít og samdi hugleiðslutónlist

26.09.2022 - 10:30

Höfundar

Smári Tarfur sendi nýlega frá sér fimm plötur, undir fimm nöfnum og í fimm mismunandi tónlistarstílum. Ein þeirra er með sólóverkefni sem hann kallar Son of the Wind sem varð til undir Eyjafjöllum þegar hann vann þar á sveitabæ.

Í bílskúr í Laugardal í Reykjavík gerast ýmsir töfrar. Þar býr tónlistarmaðurinn Smári Tarfur Jósepsson og sinnir list sinni. Í vikunni sem leið sendi hann frá sér fimm plötur sem unnar voru í skúrnum. Fimm plötur, undir fimm nöfnum og í fimm mismunandi tónlistarstílum. „Það er alveg búið að renna á mig töluvert æði í þeim efnum þegar að ég náði loksins að jafna mig á handameiðslunum,“ segir Smári. Hann ræddi við Síðdegisútvarið á Rás 2 um plöturnar. 

Missti úr fimm ár en bætir það upp með fimm plötum 

„Þetta er ákveðið uppgjör við þennan hundleiðinlega tíma,“ segir Smári en hann hefur lítið geta spilað á hljóðfæri sitt, gítar, í fimm ár vegna meiðsla. Þessi fimm ár hefur hann nú bætt upp með fimm plötum sem komu allar út samdægurs. „Þetta eru reyndar tvær hljómsveitir og þrjú sólóverkefni.“ 

Á þessum fimm árum sem hann glímdi við meiðsl mátti hann ekki leika á hljóðfæri sitt. „Mér fannst þetta skemmtilegt uppgjör við þennan tíma. Ég missti úr allan þennan tíma og núna bara bæti ég mér það upp með þessari útgáfu. Fimm plötur sama daginn.“ 

Dauðarokk og hugleiðslutónlist

Plöturnar fimm hafa allar sinn stíl og tilheyra sinni tónlistarstefnunni hver. Fyrstu plötuna gefur Smári Tarfur út undir eigin nafni og hún heitir Sonur Jóseps. „Þar er ég að leika á kassagítar og syngja, ýmist á kjöltugítar eða að spila á hefðbundið á gítar og syngja.“ 

Næstu tvær plötur eru ósungnar. Það er annars vegar flamencó-tónlistin á plötunni The Lady of Dagur sem gefin er út undir nafninu Smeriglio Del Toro og hins vegar platan Fosseti sem gefin er út undir nafninu Son of the Wind. Son of the Wind varð til 2014 þegar að Smári bjó á sveitabæ undir Eyjafjöllum. „Þá var ég bara að moka skít og gefa kindum og svo framvegis og þegar að tími gafst til og veður leyfði þá sat ég við Seljalandsfoss og lék af fingrum fram á kjöltu gítar, slide-gítar. Þá varð til þessi dreymna flæðis hugleiðslutónlist.“ Fosseti er þriðja platan sem Smári gerir undir því nafni.  

Að lokum koma tvær hljómsveitarplötur. Fyrst er það platan Úmbarassa með sveitinni Led by a Lion en þá hljómsveit skipa auk Smára þeir Bragi Eiríkur Jóhannsson, Maggi Magg og Arnþór Ágústsson. Síðsta platan segir Smári að sé sín uppáhaldsplata. „Ég er óheyrilega ánægður með þessa plötu. Þó ég sé ánægður með þær allar þá stendur þessi plata mér rosalega nærri því að hart rokk og öfgarokk og dauðarokk sérstaklega er eitthvað sem að vekur upp mikinn hita í mér.“ Dauðarokkplatan er með hljómsveitinni Patronian og heitir Stabbed by Steel. Sveitina skipa Smári sjálfur, Pierre Dolinique og Benjamín Bent Árnason. 

Plöturnar segir Smári að séu allar aðgengilegar á streymisveitum undir mismunandi nöfnum. „Fólk verður að grafa upp þessa titla.“ Einnig má finna hlekki fyrir plötur Smára hér. 

Rætt var við Smára Tarf í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Þurfum við ekki að leggja niður dönskukennslu?“