Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Carlsen rýfur þögnina um málið sem skekur skákheiminn

Mynd með færslu
 Mynd: C. Kråkenes - NRK

Carlsen rýfur þögnina um málið sem skekur skákheiminn

26.09.2022 - 20:21
Stórmeistarinn Magnus Carlsen gaf fyrr í kvöld út yfirlýsingu um mál sem heltekið hefur skákheiminn upp á síðkastið. Carlsen hætti keppni þegar hann tefldi við Hans Niemann því hann grunaði að brögð hefðu verið í tafli. Skömmu síðar mættust þeir aftur og þá hætti Carlsen eftir einn leik. Yfirlýsing Carlsens dregur upp dökka mynd af atburðum síðustu vikna.

Norski stórmeistarinn Magnus Carlsen hefur verið í efsta sæti heimslistans frá 1. júlí 2011 og er ríkjandi heimsmeistari. Í dag sigraði hann á Julius Baer Generation Cup-mótinu og sló á sama tíma 2900-stiga ELO-múrinn. Við það tækifæri gaf hann út yfirlýsinguna.

Af yfirlýsingunni að dæma virðist sem Carlsen hafi meira en sterkan grun um að brögð hafi verið í tafli.

Tímalínan:

Yfirlýsingunni fylgir nokkur aðdragandi en Niemann og Carlsen hafa mæst nokkrum sinnum síðastliðnar vikur.

- 5. september. Carlsen hættir keppni á Sinqufield Cup-mótinu daginn eftir að hafa tapað gegn Niemann. Var þetta í fyrsta sinn sem Carslen dró sig úr leik á sigursælum ferli sínum. Án þess að saka Niemann beint um svindl ýjar Carlsen sterklega að því.

- 19. september. Carlsen gefur leikinn þegar hann teflir við Niemann á Champions Chess Tour-mótinu sem haldið er á netinu, eftir einn leik. 

26. september. Carslen sigrar Julius Baer Generation Cup og gefur út yfirlýsinguna að neðan.

Yfirlýsingin hljóðar svo:

Kæri skákheimur,

Á Sinquefield Cup-mótinu 2022 tók ég þá fordæmalausu ákvörðun að draga mig úr keppni á mótinu eftir þriðju umferð á móti Hans Niemann. Viku síðar á Champions Chess Tour-mótinu gaf ég leikinn þegar ég tefldi á móti Hans Niemann eftir einungis einn leik.

Ég veit að gjörðir mínar hafa svekkt marga í skáksamfélaginu. Ég er sjálfur hundsvekktur. Ég vil tefla skák. Ég vil halda áfram að tefla á hæstu stigum á fremstu mótunum.

Ég trúi því að það að svindla í skák sé stórmál og í raun ógn við tilvist leiksins. Ég trúi því líka að skipuleggjendur móta, og allir sem láta sig skák varða, ættu að íhuga alvarlega að bæta öryggismál og aðferðir til að koma upp um svindl í skák þegar leikið er augliti til auglitis. Þegar Niemann var boðið á síðustu stundu að leika á Sinquefield Cup-mótinu 2022 íhugaði ég alvarlega að draga mig úr leik áður en keppni hófst. Á endanum ákvað ég að vera með.

Ég held að Niemann hafi svindlað meira - og það einnig nýverið - en hann hefur viðurkennt fyrir almenningi. Framfarir hans í skák hafa verið óvenjulegar, og í gegnum allan leik okkar á Sinquefield Cup-mótinu hafði ég það á tilfinningunni að hann væri ekki taugaspenntur né með fulla einbeitingu á mikilvægum augnablikum. Þetta gerði hann á sama tíma og hann sá við mér sem svartur með hætti sem ég tel að einungis á færi fárra leikmanna. Þessi leikur varð til þess að ég skipti um skoðun á málinu.

Við verðum að gera eitthvað varðandi svindl. Ég vil ekki tefla við fólk sem hefur ítrekað svindlað, vegan þess að því er trúandi til alls.

Það er meira sem ég vildi sagt hafa. Ég get því miður ekki tjáð mig frekar án leyfis frá Niemann. Hingað til hef ég aðeins geta látið verkin tala, og þau verk eru skýr yfirlýsing um að ég vil ekki tefla við Niemann. Ég vona að sannleikurinn í þessu máli komi í ljós, hver svo sem hann er.

Yðar einlægur,

Magnus Carlsen - heimsmeistari í skák. 

Tengdar fréttir

Skák

Yfirlýsing væntanleg frá Carlsen vegna gefinnar skákar

Skák

Carlsen gaf skákina gegn Niemann

Innlent

Skákheimurinn nötrar eftir að Carlsen dró sig úr keppni