Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Almannavarnir vilja skýringar á rafmagnsleysi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ólafur Gros
Almannavarnir hafa óskað skýringa á hvernig hálft landið varð rafmagnslaust í gær. Fagstjóri aðgerðarmála almannavarna segir atvik sem þetta tekið alvarlega. Foktjón og of mikið álag á byggðalínu er talið vera skýringin.

Fagstjóri aðgerðarmála hjá almannavörnum segir alvarlegt mál þegar hálft landið verði rafmagnslaust eins og gerðist í gær. Fjarskipti hafi þó haldið sem þakka megi úrbótum sem gerðar hafi verið frá óveðrinu sem skall á 2019.

Fljótsdalslína fjögur og búnaður í tengivirki álversins í Alcoa fóru út á sama tíma vegna bilunar. Talið er að foktjón hafi orðið en  eftir á að skoða línuna. Í kjölfarið hófst keðjuverkun sem endaði með því að allt að helmingur landsins varð rafmagnslaus um tíma allt frá Blöndu til Hafnar í Hornafirði að sögn Steinunnar Þorsteinsdóttur upplýsingafulltrúa Landsnets.

„Þetta var náttúrulega algjört hamfaraveður já og við höfum heyrt það að það hafi verið mikið um fjúkandi hluti á svæðinu og mögulega hefur farið í línuna og á búnaðinn hjá álverinu á svipuðum tíma og valdið þessari atburðarás eins og staðan er núna þá vitum við það ekki alveg en það er líkleg skýring já.“
 

Jón Svanberg Hjartarson er fagstjóri aðgerðamála hjá almannavörnum.

„Það er náttúrulega alltaf bagalegt þegar að verður rafmagnsleysi. Ég tala nú ekki um þegar að það verður á svona stóru svæði á landinu og í nokkurn tíma en það sem er líka mikilvægt að horfa til í þessu er að þetta olli þó alla vegana ekki neinum truflunum á fjarskiptasambandi eða neyðaröryggisfjarskiptum svo við vitum. Við höfum ekki fengið neinar tilkynningar um slíkt.“

Fólk hafi því áfram getað hringt í neyðarlínuna og aðgerðastjórn hafi verið virk. Miklar úrbætur hafi orðið á innviðum frá því í óveðrinu 2019  þegar víðtækt rafmagnsleysi varð.

„Fjarskiptasambandið til dæmis núna þegar að þetta rafmagnsleysi verður þá slá inn varaaflsstöðvar á rúmlega 20 sendastöðvum held ég sem að koma strax inn.
„Rafmagn slær út á helmingi landsins það er ekkert grín.“ „Nei það er alvarlegt mál það er alveg ljóst.“
 

 

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV