Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ungur leikari í lífstíðarfangelsi fyrir móðurmorð

25.09.2022 - 10:42
epa07285165 A Canadian flag flies at the Canadian embassy in Beijing, China, 15 January 2019. A Chinese court issued a death sentence to Robert Lloyd Schellenberg of Canada for drug smuggling. On 14 January 2019, following an appeal, a high court in Dalian city changed the man's previous 15 years in prison sentence for drug smuggling and sentenced him to death, saying his previous sentence was too lenient, according to media reports. The ruling comes during a diplomatic row between Canada and China after Canadian authorities arrested Meng Wanzhou, an executive for Chinese telecommunications firm Huawei, at the request of the USA.  EPA-EFE/ROMAN PILIPEY
 Mynd: epa
Kanadíski leikarinn Ryan Grantham var í vikunni dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa orðið mömmu sinni að bana. Hann var aðeins 21 árs gamall þegar hann skaut mömmu sína í hnakkann í lok  mars árið 2020.

Grantham er meðal annars þekktur fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Riverdale, sem sýndir eru á Netflix, og í kvikmyndinn sem gerð var eftir bókaflokknum Dagbók Kidda klaufa, eða Diary of a Wimpy Kid. Hann játaði fyrr á árinu fyrir dómi að hafa myrt mömmu sína, og samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs fylgir því sjálfkrafa lífstíðardómur í fangelsi.

Barbara Waite, móðir Granthams, var 64 ára gömul þegar Grantham skaut hana til bana. Hún sat við píanóleik á heimili þeirra í Squamish, sem er bær í um klukkustundar akstursfjarlægð frá Vancouver, þegar Grantham kom aftan að henni og skaut hana í hnakkann.

Skömmu eftir morðið tók Grantham sjálfur upp myndband þar sem hann játaði á sig glæpinn. Hann tjáði yfirvöldum síðar að hann hafi gert áætlanir um að drepa kanadíska forsætisráðherrann Justin Trudeau og velti því fyrir sér að fremja fjöldaskotárás í háskóla í heimabænum. Honum hafi þó snúist hugur.

Samkvæmt yfirheyrslum við lögreglu myrti hann mömmu sína til að fría hana við því að þurfa að takast á við eftirköst þessara áformuðu glæpa hans.
Þar sem Grantham hlaut lífstíðardóminn sjálfkrafa snerist dómurinn í vikunni aðallega um hvenær hann geti sótt um reynslulausn. Fjölmiðlar segja að dómarinn Kathleen Ker hafi úrskurðað að hann verði að sitja minnst fjórtán ár í fangelsi áður en hann getur sótt um reynslulausn.

Grantham hefur setið inni frá 1. apríl 2020, daginn eftir að hann myrti mömmu sína. Fjölmiðlar vestanhafs hafa eftir verjanda hans, Chris Johnson, að sálfræðingar séu sammála um að Grantham hafi þjáðst af miklu þunglyndi og glímt við geðræn vandamál vegna kannabisneyslu, auk annars. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV