Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mikið tjón og stríðsminjar að glatast á Reyðarfirði

25.09.2022 - 16:36
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Sigurðsson - Aðsend
Óveðrið er nú í hámarki á Austfjörðum þar sem rauð viðvörun tók gildi í hádeginu. Mikið tjón hefur orðið á Reyðarfirði þar sem brak fýkur víðs vegar um bæinn og biður lögreglan íbúa um að halda sig innandyra og vera alls ekki á ferðinni. Björgunarsveitir eru að störfum í bænum.

Ragnar Sigurðsson íbúi á Reyðarfirði segir björgunarsveitir reyna að halda í við þær skemmdir sem þegar hafi orðið en að stöðugt bætist við tjón. „Til dæmis er einn af bröggum Stríðsárasafnsins hálf farinn eins og hann leggur sig. Þar er ein hliðin lögst niður og þakið farið af.“ Ragnar segir að þar með séu mikilvægar stríðsminjar að glatast. „Húsið sjálft er auðvitað bara sögulegar minjar og það eitt og sér er auðvitað vont tjón og sársaukafullt að horfa á eftir því.“

Ragnar hefur farið aðeins um bæinn og verið í sambandi við björgunarsveitir. Hann segir tjónið á Stríðsárasafninu langt frá því að vera það eina. „Sömu sögu er að segja um aðra hliðina á gömlu Byko skemmunni sem er hérna niðri í bæ á Reyðarfirði. Og svo heyrist bara af talsverðum skemmdum á iðnaðarhúsnæði í Mjóeyrarhöfn og svo á íbúðarhúsnæði.“

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Sigurðsson - Aðsend

Jón Kjartansson farinn að losna frá bryggju

Þá var uppsjávarveiðiskipið Jón Kjartansson næstum farið á hliðina í höfn á Reyðarfirði . „Hann var farinn að halla ansi mikið og vöttur sem er lóðsbáturinn á Reyðarfirði er kominn út og er að halda í við það, er sem sagt að keyra það upp að bryggjunni. Hann var farinn að losna frá bryggju og farinn að halla mjög mikið þannig að þeir eru svona að halda í við það og vona að þetta fari nú svona aðeins að lægja þannig að það sé hægt að fara að huga að því að binda það og festa almennilega.“

Við Mjóeyrarhöfn þar sem að álverið stendur hafa verið miklar skemmdir. Þar hafa gámar fokið í heilu lagi á haf út. „Það er rétt og það er þar eru bæði mjög miklar skemmdir á húsnæði og verðmætum bæði á vegum Eimskips og hafnarinnar.“

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Sigurðsson - Aðsend
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Sigurðsson
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Sigurðsson
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Sigurðsson
astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir