Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tími lögreglu knappur

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Lögregla er enn sannfærð um að hryðjuverkaógn sem beindist meðal annars að lögreglu og Alþingi í vikunni hafi verið alvarleg og að lögregla hafi með aðgerðum sínum afstýrt voðaverkum. Tveir eru í haldi en lögregla krafðist tveggja vikna gæsluvarðhalds yfir báðum mönnunum. Héraðsdómur féllst ekki á þá beiðni í tilfelli annars þeirra. Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, segir tímann því knappan.

Tveir íslenskir karlmenn á þrítugsaldri voru á fimmtudag úrskurðaðir í viku og tveggja vikna langt gæsluvarðhald eftir umfangsmiklar aðgerðir sérsveitar ríkislögreglustjóra á miðvikudag. Þeir eru grunaðir um skipulagningu hryðjuverka.

„Ég get staðfest það að við erum á fullu að vinna við rannsókn málsins og fara yfir þau gögn sem við erum með. Okkur var úthlutaður skammur tími við ákveðna þætti í málinu þannig við erum í kappi við tímann með það. Og á þessu stigi er ekkert meira sem við getum tjáð okkur um,“ segir Karl Steinar. 

Sjá einnig: Skotárásin í miðbænum kom lögreglunni á sporið

Lögregla sé með fangið fullt af gögnum og snýst rannsókn málsins aðallega að því að fara í gengum þau næstu daga. Lögreglan hefur takmarkaðan tíma áður en gæsluvarðhaldsúrskurður rennur út yfir öðrum mannanna. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að málið sé enn litið mjög alvarlegum augum. 

„Við erum svo sem ekki búin að gefa miklar upplýsingar um rannsóknina sjálfa vegna þess að við erum að kafa í henni en það hefur ekki breyst neitt að við lítum þetta alvarlegum augum.“

Á fimmta tug vopna 

Gríðarlegt magn af skotvopnum og skotfærum fundust við rannsókn málsins, meðal annars hálfsjálfvirkar byssur - sem eru skotvopn sem hægt er að skjóta úr, einu skoti á eftir öðru, án þess að hlaða á milli - auk þrívíddarprentara sem notaðir voru við framleiðslu vopnanna. Að sögn Gríms lagði lögregla hald á yfir fimm tugi vopna. Hann gat ekki veitt upplýsingar um hversu margir hafi verið yfirheyrðir í tengslum við málið en staðfesti að lögregla hafi bæði farið í húsleitir og yfirheyrt fólk síðustu daga. Óskað var eftir ábendingum frá almenningi vegna málsins og hafa þó nokkrar borist. 

„Ábendingar sem koma til okkar, bæði þegar við óskum eftir þeim og oft koma þær óumbeðnar, þeim er alltaf fylgt eftir og oft er eitthvað úr því að græða.“