Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir áformin vera birtingarmynd um vanrækt samfélag

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett - RÚV
Fyrirhuguð hryðjuverkaárás sem lögreglu tókst að koma í veg fyrir í vikunni er birtingarmynd um vanrækt samfélag, að mati Helgu Völu Helgadóttur þingmanns samfylkingarinnar. Hún og Hafdís Hrönn Helgadóttir, þingmaður Framsóknar, tókust á um forvirkar rannsóknarheimildir í Vikulokunum í morgun.

„Þetta er raunveruleiki sem við þurfum að fara að sætta okkur við að við búum við, segir Hafdís Hrönn. „Við erum enn þá föst í því að við séum litla hreina Ísland og þetta gerist ekki ég hefur verið sagt. Það að þetta hafi gerst kemur manni í opna skjöld. Ég get ekki tekið undir það.“

Hafdís segir að það sé mikilvægt að að veita lögreglu heimildir til að bregðast við þegar líkur eru á að glæpur verði framinn og komið í veg fyrir atvik eins og hina fyrirhuguðu hryðjuverkaárás. Þá gæti slík heimild gert lögreglu kleift að taka betur á skipulagðri glæpastarfsemi.

Hún gefur lítið í áhyggjur fólks um að forvirkar rannsóknarheimildir geri lögreglu kleift að að fylgjast með hverjum sem er. „Nei það er ekki þannig,“ segir Hafdís. „Lögreglan verður að hafa rökstuddan grun um að það séu aðilar sem ætla sér eitthvað. Það er ekki þannig að lögreglan fari bara að fylgjast með húsinu hennar Helgu Völu bara af því henni sýnist svo.“

Áhyggjur af aukinni öfgahyggju

Helga Vala segir að lögreglan hafi lengi verið vanfjármögnuð og að of fáir lögreglumenn séu við störf. Hún telur að það þurfi að byrja að efla lögregluna og gera þeim kleift að vinna störfin sín betur áður en ráðist er í aðgerðir eins og að auka vopnaburð lögreglu eða veita forvirkar rannsóknarheimildir.

Hún telur að forvirkar rannsóknarheimildir skili sér ekki í friðsamlegra eða öruggara samfélagi. „Þvert á móti er búin til viðbótarógn og skerðing á réttindum borgara. Þannig ég er ekki viss um að það sé rétta lausnin,“ segir Helga.

Lögreglan hafi staðið sig vel í að koma í veg fyrir árásina, og að þeir séu þegar með úrræði til að koma í veg fyrir glæpi. Helga vill ekki síst leggja áherslu á vandamál í skólakerfinu og stöðu drengja í samfélaginu.

Hafdís Hrönn er sámmála Helgu og hefur einnig áhyggjur af aukinni öfgahyggju á Íslandi „Það er miklu meira á bak við þetta. Maður hugsar hvað gengur fólki til? Erum við að ýta fólki út í horn? Það sem gerir það kannski að verkum að það myndis svona öfgahyggja af því við erum kannski ekki að grípa ungu drengina okkar rétt,“ segir Hafdís.

Gagnrýnir upplýsingagjöf lögreglu

Hugsanlegt skotmark árásanna voru alþingismenn, sem fengu ekki að vita neitt um málið fyrr en á blaðamannafundi lögreglu.

„Ég skil alveg að lögregla geti ekki verið að upplýsa okkur um þegar þeirra rannsókn er í miðjum klíðum,“ segir Helga Vala. “Ég hef fullan skilning fyrir því, en ég heyrði það niðri í þingi. Það voru allir mjög slegnir. Bæði þingfólk og starfsfólk. Fólki fannst mjög óþægilegt að það var látið eins og þetta kæmi okkur ekki við. Að það þurfti ekki sérstaklega að ræða við okkur sem að vorum þó [...] að við vorum annað aðalskotmarkið. “