Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rauð viðvörun á morgun - Almannavarnir bregðast við

24.09.2022 - 14:33
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands - Skjáskot
Veðurstofan hefur uppfært viðvaranir sínar fyrir morgundaginn. Rauð viðvörun tekur gildi á Austfjörðum í hádeginu á morgun, en áður voru þær orðnar appelsínugular um allt austanvert landið. Fólk er hvatt til að tryggja lausamuni og ítrekað er að ekkert ferðaveður verður á þessum slóðum. Almannavarnir hafa jafnframt gefið út viðvaranir vegna veðursins og tekur eftirfarandi gildi á morgun:
  • Óvissustig á Norðurlandi vestra
  • Óvissustig á Norðurlandi eystra
  • Óvissustig á Austurlandi
  • Hættustig á Suðurlandi.

„Á morgun má búast við að þar [fyrir austan] verði stormur og rok og jafnvel upp í ofsaveður á stöku stað. Þetta er orðið það mikill vindur að foktjón er orðið ansi líklegt,“ segir Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Í skeyti veðurfræðings Vegagerðarinnar kemur fram að staðbundnar hviður geti náð 50-60 metrum á sekúndu.

„Vegna þessa er hætt við að vegir geti lokast, m.a. hringvegurinn frá Kirkjubæjarklaustri og austur fyrir Djúpavog. Um tíma einnig hviðuveður í Mýrdal og undir Eyjafjöllum,“ segir í skeytinu.

Auknar líkur á skriðuföllum áður en snöggkólnar

En það taka gular viðvaranir gildi um nánast allt land áður en að þessu kemur, og það er von á skelli í kvöld og nótt.

„Núna í kvöld þá kemur sama lægðin og orsakar suðvestanátt í kvöld. Í rauninni allt landið nema Suðurland er með gula viðvaranir. Það verður möguleiki á foktjóni ef fólk gengur ekki frá lausamunum. Svo er ekkert ferðaveður um helgina.“

Í tilkynningu ofanflóðavaktar Veðurstofunnar segir að úrkoma í kvöld verði fremur skammvinn, en ákefðin verði talsverð í kvöld og auknar líkur eru á skriðum og grjóthruni vestanlands. Eftir miðnætti styttir hratt upp og kólnar svo á sunnudag og þá minnka líkur aftur á skriðuföllum.

Von á slyddu og snjókomu fyrir austan

Veðrinu á morgun getur svo fylgt slydda og snjókoma, helst til fjalla.

„Já, appelsínugulu viðvaranirnar á Norðurlandi eystra er vegna hríðar. Þar er ansi líklegt að verði slydda og snjókoma á fjallvegum og það er sömuleiðis von á því á Austurlandi,“ segir Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Fréttin var uppfærð klukkan 15.20 með upplýsingum um almannavarnastig. Hún var aftur uppfærð klukkan 16.50 eftir að rauð viðvörun var gefin út.