Ölvun á rafhlaupahjólum bönnuð

23.09.2022 - 15:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Refsivert verður að fara um ölvaður á rafhlaupahjóli verði frumvarpsdrög innviðaráðherra að lögum. Þá leggur ráðherra til að börnum yngri en 13 ára verði óheimilt að aka smáfaratækjum. Einnig verður lagt bann við því að breyta hjólunum og hækka þannig hámarkshraða þeirra.

Drögin er að finna í samráðsgátt stjórnvalda. 

Í frumvarpsdrögunum er búinn til nýr flokkur, flokkur smáfarartækja. Rafhlaupahjól tilheyra þeim flokki. Leyfilegt verður að fara um á rafhlaupahjóli á götum þar sem hámarkshraði er ekki meiri en 30 kílómetrar á klukkustund. Í drögunum er einnig lagt til að bannað verði að breyta rafmagnsreiðhjólum, smáfarartækjum og léttum bifhjólum og þannig hækka hámarkshraða þeirra. Eftir slíka breytingu verða þessi farartæki óheimil í umferð. Börnum yngri en 16 ára verður skylt að nota hjálm á rafhlaupahjóli. 

Í greinargerð með frumvarpsdrögunum er bent á að 17% þeirra sem slösuðust alvarlega í fyrra hafi verið á rafhlaupahjóli þó svo að umferð slíkra hjóla séu aðeins 1% af allri umferð. Þá hafi ungmenni verið áberandi í hópi óvarinna sem slösuðust í umferðinni. Allt niður í átta ára börn hafi þurft að leita á neyðarmóttöku Landspítala. 

Ölvun er algeng hjá þeim sem slasast seint á föstudags- og laugardagskvöldum á rafhlaupahjólum. Samkvæmt könnun höfðu 40% vegfarenda stýrt rafhlaupahjóli ölvuð eða undir áhrifum annarra vímuefna, segir í greinargerðinni.