NASA hyggst breyta stefnu smástirnis á mánudag

Mynd með færslu
 Mynd: NASA
Bandaríska geimferðastofnunin NASA gerir tilraun á mánudaginn sem aldrei hefur verið gerð áður. Lítið ómannað geimfar verður látið rekast á smástirni til að kanna hvort mögulegt er að breyta stefnu þess.

Tilgangurinn er að láta reyna á hvort unnt sé að breyta stefnu fyrirbæra í geimnum sem mögulega gætu ógnað lífi á jörðinni.

Geimfarinu, sem er á stærð við fólksbíl, var skotið á loft í nóvember en það gengur undir heitinu DART, sem er skammstöfun fyrir Double Asteroid Redirection Test.

DART nálgast smástirnið Dimorphos hratt en ætlunin er að farið skelli á yfirborði stirnisins á um 23 þúsund kílómetra hraða klukkan 23.14 á mánudagskvöld.

Vert er að taka fram að jörðinni stafar ekki ógn af Dimorphos sem hringsólar um stóra bróður sinn Didymos. Minnsta fjarlægð þeirra frá jörðu er um sjö milljónir kílómetra.

Hins vegar telja sérfræðingar NASA brýnt að láta reyna á hvort hægt sé að breyta stefnu fyrirbæris í sólkerfinu áður en hætta blasir við. Slík ógn er þó hverfandi næstu 100 árin eða svo, hið minnsta.

Vonir standa til að höggið verði til þess að stytta umferðartíma Dimorphos um Didymos um tíu mínútur. Myndavélabúnaður um borð í DART gefur sérfræðingum NASA kost á að fylgjast með árekstrinum.

Almenningur getur fylgst með á vefsíðu stofnunarinnar. Innan tveggja ára hyggst Geimferðastofnun Evrópu senda geimfar til Dimorphos til að meta árangurinn.