Ísland áttunda neðst yfir hlutfall látinna í umferðinni

23.09.2022 - 06:35
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Ísland er í áttunda neðsta sæti meðal Evrópuríkja á lista yfir fjölda látinna í umferðinni á hverja 100 þúsund íbúa. Eitt markmiða stjórnvalda um aukið umferðaröryggi til ársins 2034 er að Ísland verði meðal þeirra fimm neðstu.

Listinn er tekinn saman af CARE, sem rekur samevrópskan umferðarslysagagnagrunn. Það markmið stjórnvalda, að látnum og alvarlega slösuðum fækki um 5% árlega til ársins 2034, hefur ekki náðst. Þó virðist miða í rétta átt.

Fjallað er um málið á vef FÍB þar sem fram kemur að Ísland var í tíunda sæti undanfarin fjögur ár en við útreikninga er tekið mið af meðaltali á fimm ára tímabili.

Á árunum 2011 til 2015 var Ísland í þriðja til fimmta neðsta sæti á listanum en á vef FÍB er því velt upp hvort fjölgun ferðamanna í umferðinni kunni að hafa áhrif á þróun undanfarinna ára.

Vitnað er í tilkynningu Vegagerðarinnar þar sem segir að ferðamenn og erlendir ríkisborgarar búsettir í landinu séu um þriðjungur þeirra sem létust í umferðarslysum á árunum 2012 til 2021.

Samkvæmt ársskýrslu Vegagerðarinnar 2021 um framkvæmd umferðaröryggisáætlunar var 760 milljónum króna varið til sértækra umferðaröryggisaðgerða.

Viðamest er eyðing svartbletta svonefndra sem eru vegakaflar eða staðir þar sem slys eru tíð og oft af líkum toga; vinna við umhverfi vega; og uppsetning vegriða.