Hæstiréttur tekur upp mál Slayer gegn Secret Solstice

23.09.2022 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd: Slayer
Hæstiréttur hefur samþykkt málskotsbeiðni umboðsfyrirtækis þungarokkshljómsveitarinnar Slayer í máli gegn skipuleggjendum Secret Solstice-tónlistarhátíðarinnar.

Hátíðarhaldarar greiddu aldrei Slayer fyrir tónlistarflutning þeirra á Secret Solstice-hátíðinni í Laugardal árið 2018. Málið hefur síðan velkst um í dómskerfinu og komið fyrir kastljós fjölmiðla allar götur síðan. Í héraðsdómi var dæmt Slayer í vil en fyrir Landsrétti voru hátíðahaldarar sýknaðir.

Sýknudómur Landsréttar var tvíþættur. Annars vegar voru áfrýjendurnir sýknaðir af kröfu hljómsveitarinnar um að orð framkvæmdastjóra Live Events í fjölmiðlum yrðu skilin svo að þeir gengjust í ábyrgð fyrir greiðslu skuldarinnar. 

Landsrétti þótti ummælin þess eðlis að um almenna yfirlýsingu hafi verið að ræða. Ekki ótvíræðan vilja til loforðsgjafar. Þá hafi þau verið í andstöðu við ummæli stjórnarmanns félagsins.

Hins vegar sýknaði Landsréttur L Events ehf., Lifandi Viðburði ehf., og Guðmund Hreiðarsson Viborg af kröfum Slayer um skaðabætur. Slayer hafði krafist skaðabóta og taldi að verðmætum hafi verið ráðstafað frá Solstice Production með saknæmum hætti áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Ráðstafanirnar hafi, samkvæmt Slayer, verið til hagsbóta fyrir áfrýjendur.

Umboðsfyrirtæki Slayer hélt því fram í málskotsbeiðni sinni til Hæstaréttar að málið hafi fordæmisgildi fyrir þrjár sakir; vegna skýringu og mats á skuldbingingargildi loforða sem beint er til tiltekins hóps manna með almennri yfirlýsingu í fjölmiðlum, vegna skýringu og beitingu reglna hlutafélagaréttar um skaðabætur og samsömun og vegna 26. málsgreinar laga um meðferð einkamála. 

Hæstiréttur fellst á að taka upp málið þar sem talið er að dómur gæti haft fordæmisgildi um stofnun kröfu og greiðsluskyldu í tilviki fleiri skuldara, eins og það er orðað í ákvörðun réttarins.